28. júlí 2012

Hvatningaráhrif ólympíufara

Ekki horfði ég á setningarathöfn ólympíuleikanna í gærkvöldi. Verð víst að viðurkenna það. Hef sjaldan haft gaman af að fylgjast með svona hátíðum. Heyri þó að hún hafi verið góð; hátíðin í gær. Gott mál.

Annað skammarlegt verð ég að viðurkenna. Að einhverjum handboltakempum undanskildum held ég að ég geti ekki nefnt neinn ólympíufara Íslands þetta árið með fullu nafni. Hvað þá að vita í hvaða íþróttum þeir keppi. Svei mér þá, ég las ábyggilega í morgun að einhver Íslendingur keppi í skammbyssuskotfimi. Ég vissi nú ekki að svoleiðis skotfimi væri keppnisgrein.

En, þrátt fyrir þessa vanþekkingu mína (sem auðvitað skrifast bara á leti mína við að fylgjast með íslenskum íþróttafréttum) þá fyllti einn ólympíukappi mig eldmóði áðan og dró mig útúr húsi til að hreyfa mig.

Ekki var þetta nú Íslendingur. Því miður.

Þetta var sjálfur Bradley Wiggins. Maður sem ég hafði ekki hugmynd um hver væri fyrr en fyrir tveimur vikum eða svo. Þetta er víst fyrsti Bretinn sem nær því að vinna frönsku hjólreiðakeppnina, Tour de France. Þeirri keppni er nýlokið þetta árið og ég átti það til sum kvöld að fylgjast með yfirlitsþætti á einni íþróttarásinni þar sem farið var yfir framgang hjólreiðakeppninnar þann daginn. Þar komst ég að því að þessi Bradley Wiggins væri til og að hann væri svakalega góður hjólreiðamaður.

Skilst mér að þessi náungi sé í guðatölu í Bretlandi þessa dagana. Þrátt fyrir sína hræðilegu barta. Bretum finnst afrek hans vera á sama stalli og sigurinn í heimsmeistarakeppninni í fótbolta 1966. Kalla þeir hann ástúðlega Wiggo, eða bara Viggó, því Bretar eru jú svo kammó.

En, sem ég sat utandyra fyrr í dag og naut veðurblíðunar í Malaví og flæktist um á internetinu, þá rakst ég á grein um hann Viggó. Hann var í viðtali hjá einhverjum breskum fréttamönnum, sem höfðu áhuga á að vita hvort hann væri of þreyttur eftir frönsku keppnina til að geta eitthvað á ólympíuleikunum. Viggó hélt nú ekki. Hann stefnir á að vinna ólympíuleikana og segir að níu daga hvíld sé feykinóg.

Eitthvað varð hann þreyttur á blaðamönnunum og sagðist þurfa að skreppa í afslöppunarhjólatúr. „Ætli ég hjóli ekki núna í svona klukkutíma,“ á hann að hafa sagt, „og hjóla þá svona 30 km í þeirri afslöppun.“

Vá.

Ekki var til setunnar boðið fyrir mig. Þetta viðtal hafði einhverra hluta þau áhrif á mig að ég æddi inn, fann hjólabuxurnar (þessar með púðanum á besta stað) og greip hjólið mitt og hjólaði af stað. Ef hann getur hjólað 30 km á klukkutíma, þá hlýt ég að geta það líka.

Ég ætti að nefna að ég var á ferðalagi fyrir stuttu og fann hraðamæli á hjólið mitt í búð nokkuri í Jóhannesarborg. Ekkert svona gps-dæmi, heldur bara venjulegan hraðamæli, sem gefur mér upp tímann sem ég hjóla, meðalhraða og mesta hraða og eitthvað meira. Ég gat því alveg mælt mig við hann Viggó.

Ég hjólaði og hjólaði sem mest ég mátti. Upp-í-móti, niðr'í-móti og á jafnsléttu. Ég hef átt í vandræðum með gírskiptinguna á hjólinu mínu en er loksins búinn að finna út úr því og hef því 27 gíra til að velja úr. Enda þegar einhver deli ætlaði fram úr mér á gíralausum svörtum jálki, þá skipti ég úr upp-í-móti gírnum í jafnsléttugírinn og skildi delann eftir í reykjar- og rykmekki. Jæja, kannski frekar í svitamekki. Gott ef hann rann ekki til í svitapollinum eftir mig...

Þetta var skemmtilegur túr. Ég misreiknaði mig nú aðeins. Leiðina sem ég valdi kláraði ég á 33 mínútum og 16 sekúndum. Náði ekki alveg 30 km/klst meðalhraðanum sem Viggó ætlaði að ná í afslöppunartúrnum sínum. Hjólaði 11,3 km á þessum ríflega hálftíma, og hraðamælirinn segir að meðalhraðinn hafi því verið 20 og hálfur km á klukkustund. Nokkuð gott fannst mér. Nokkuð gott. Náði mest 46 km/klst hraða niður eina brekkuna. Eins gott að forðast holurnar í malbikinu á þeirri siglingu.

Núna, svona einum og hálfum tíma síðar líður mér vel. Smáfiðringur í lærum og gott væri að hafa einhvern til að nudda þau. En annars hress. Já, svo gleymdi ég að nefna að þetta var seinni hjólatúrinn minn í dag... tók 5,6 km í morgun á 25 mínútum. En mikið á malartroðningi.

En svona geta ólympíuhetjurnar haft góð áhrif á okkur venjulega fólkið. Svo er bara að sjá hvað ég geri á morgun.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...