13. júní 2009

Ferð til Kaprivi-sýslu

Á fimmtudaginn var þurfti ég að funda í Katima Mulilo, en sá bær er í u.þ.b. 1.200 km fjarlægð frá Windhoek. Frekar en að taka fjóra daga í akstur, ákvað ég að taka áætlunarflug þangað, fljúga að morgni og koma til baka að kveldi. Flogið er til Katima tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum. Ekki beint staður í alfaraleið. Bærinn er staðsettur í strípunni svokölluðu, rananum sem varð hluti af Namibíu, því Þjóðverjar þurftu að geta komist milli nýlendnanna sinna í den. Önnur var Suðvestur Afríka, sem í dag nefnist Namibía, og hin var Sambía.

En ég mætti snemma út á völl, því flugið lagði af stað sjö að morgni. Flugvélin nefnist Beechcraft 1900, tveggja hreyfla og tekur 19 farþega. Vélin er stundum kölluð rörið, því þegar setið er í sætinu sínu, þá kemur yfir mann tilfinning að setið sé í röri. Eitt sæti hvoru megin við ganginn. Farþegar norður voru ekki nema átta, þ.a. ég gat látið fara vel um mig. Flugið gekk vel, var með tvo RÚV hádegisfréttatíma í spiladósinni minni mér til dægradvalar. Ég var aðeins undrandi hvað mikil skýjahula lá yfir Namibíu, líklega meira en helmingur af leiðinni. En töluverður munur var á gróðri í kringum Windhoek og Katima Mulilo. Allt brúnt í kringum höfuðborgina, en grænt og búsældarlegt í Kaprívi-sýslunni.

Kapríví-sýslan hefur sérstöðu að einu leyti. Þar er klukkunni nefnilega ekki breytt að vetrinum. Því munar núna klukkutíma þar og annars staðar í Namibíu. Sýslan er auðvitað nokkru austar heldur en ,,meginlandið'' sem gerir það að verkum að tímabreytingin væri líklega undarleg þar.

Á vellinum beið mín maður frá bílaleigunni og ók hann mér inn í bæ. Hann sagði mér merkilega sögu. Þannig er að þarna sem annars staðar í Namibíu eru mikil skil milli regn- og þurrktíma. Fyrstu regn gera yfirleitt vart við í nóvember og svo rignir fram til mánaðarmóta apríl og maí. Síðustu rigningar eru yfirleitt úrhelli, og segir þá gamla fólkið að regnið sé að kveðja. Kveðjan er sem sagt sú að fylla allar tjarnir þ.a. fólk hafi nægt vatn. Á þessu ári var gamla fólkið ekki alveg sátt, því kveðjurigningin kom aldrei. Hins vegar tók allt í einu upp á því að rigna í síðustu viku. Mjög óvanalegt í júní. Rigndi látlaust í tvo daga og tók nú gamla fólkið gleði sína á ný. Kveðjurigningin kom þá loksins.

Ég fór síðan á mitt fundastúss. Settist síðan ásamt öðrum á veitingahús á bökkum Sambesi-árinnar. Minnti þetta mig á Kunene-ána, þar sem við sátum um páskana. Heljarinnar breið á, og mikil reisn yfir henni. Örugglega þónokkur straumur, en hann sést ekki. Þarna sá ég í fyrsta skipti yfir til Sambíu, en á þessum stað myndar áin landamæri milli Sambíu og Namibíu.

Eitt vakti strax athygli mína þarna uppfrá. Það var þögnin. Hún var þó ekki alger, langt í frá. Fullt var af krökkum og fólki á ferð, og því hróp, hlátrasköll og ýmis fyrirgangur í fólki. Þögnin sem ég tók svona eftir átti hins vegar upptök sín í lítilli bílaumferð. Þarna var ekki þessi stöðugi umferðarniður sem er alltaf í kringum mann, nær sama hvar ég er. Einn og einn bíll ók þarna um, en bílaþögn annars. Þetta var næstum því óþægilegt í byrjun, en svo þótti mér þetta mikill léttir.

Ég ók síðan aðeins um götur bæjarins á meðan ég beið þess að fara út á flugvöll á ný. Í Katima Mulilo búa einhverjir tugir þúsunda manns. Hins vegar þótti mér bærinn frekar lítill miðað við þann mannfjölda. Spurðist ég fyrir um þetta, ef vera skyldi að ég hreinlega væri að missa af einhverjum skemmtilegum götum. Nei, hinn vestræni hluti bæjarins er víst mjög lítill. Fólk býr hins vegar flest í svokölluðum hefðbundnum húsum. Dreifast þessi hús, sem eru búin til úr leir og drullu, á stærðarinnar svæði út frá verslunarsvæðinu. Var mér sagt að byggðin næði líklega um 60 km til suðurs og heillangt til vesturs. Byggingarstíllinn er aðeins öðrum vísi en annars staðar sem ég hef séð. Þarna er mikið um ferköntuð hús, en hringlaga hús eru alsráðandi á öðrum svæðum.

Nokkuð fleiri farþegar voru á leiðinni til baka, en flugið tók góða tvo tíma. Myrkur skall fljótlega á svo ég las mína bók og hlustaði á spiladósina. Tinna Rut sá auðvitað um að koma mér út á flugvöll og sækja mig Windhoek-megin.

Við erum alveg ákveðin í því að fara þarna uppeftir þegar Dagmar Ýr kemur í frí til okkar. Í leiðinni að fara að Viktoríufossum sem eru aðeins steinsnar frá Katima Mulilo. Verður ábyggilega meiriháttar ferð.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...