27. júní 2009

Flottur forseti

Hér í Windhoek-borg eru til samtök er nefnast Samtök maka diplómata. Samtök af þessu tagi eru til í flestum ríkjum þar sem eitthvað er af sendiráðum erlendra ríkja. Þegar Gulla fluttist hingað alflutt 2007 þá gekk hún fljótt í þessi samtök. Eftir því sem ég get best séð eru tvö meginmarkmið með samtökunum. Annars vegar reyna meðlimirnir að styðja við bakið á hver öðrum, enda oft erfitt að koma á nýjan stað þar sem þú þekkir engan. Oft bætir ekki úr skák að makinn er önnum kafinn. Því funda samtökin reglulega. Hins vegar stunda samtökin ýmis konar góðgerðarstarfsemi. Beinist stuðningurinn einkum að konum og börnum. Er af nógu að taka þar.

Gulla hefur verið aktíf innan samtakanna. Varð fljótlega ritari þeirra og núna fyrir skömmu síðan var hún kosinn forseti samtakanna. Þetta er nokkur heiður og er maki hennar stoltur yfir frúnni.

Í síðustu viku stóðu samtökin fyrir fjáröflunarhádegisverði. Ekki er laust við að síðustu vikur hafi algjörlega snúist um undirbúninginn. Tinna Rut spurði fyrir nokkrum dögum: „Eruð þið alveg hætt að versla í matinn?“ Æ, stelpugreyið.

En í mörg horn þurfti að líta og var titringur í undirbúningsnefndinni þegar stóri dagurinn rann upp. Margar hendur voru lagðar á plóginn. Nær allur matur var útbúin af meðlimunum og var reynt að koma með þjóðlega rétti frá sem flestum löndum. Frá Íslandi var graflax. Öllu þurfti að raða á borð, en ekkert mátti fara úrskeiðis. Heiðursgesturinn var nefnilega ekki af lakari kantinum, sjálf forsetafrú Namibíu. Síðan mætti eiginkona forsætisráðherrans, en hún er verndari samtakanna.

Hér sjást Gulla, forsetafrúin, forsætisráðherrafrúin og eiginkona indónesíska sendiherrans, en boðið fór fram á heimili indónesísku sendiherrahjónanna.

Auðvitað þurfti forseti samtakanna að halda ræðu og fórst henni Gullu það vel úr hendi. Virtist hún þaulvön í ræðuhaldi og lét ekkert á sig fá að þarna voru sjónvarpsupptökuvélar og blaðaljósmyndarar. Að ógleymdum rúmlega 100 gestum. Var ég að rifna úr stolti.

Starfmenn indónesíska sendiráðsins, og makar þeirra, spiluðu síðan nokkur lög á stórfurðuleg hljóðfæri. Eru hljóðfærin úr leggjum bambusviðar og hef ég aldrei áður séð svona hljóðfæri. Lögin voru velþekkt og skemmtu gestirnir sér vel við tónlistina og sönginn.


Síðan stilltu fyrirmennin sér upp til ljósmyndatöku.

Ekki er ofsögum sagt að borð hafi svignað undan veitingunum. Verst var að ómögulegt var að smakka á öllu, þótt maður fengi sér bara lítið af hverju. Þvílíkt var úrvalið.


Allir namibískir starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar mættu að sjálfsögðu, enda „þeirra manneskja“ í forsvari fyrir makasamtökunum.

Ötullega var gengið fram í því að safna verðlaunum í hlutaveltu. Voru nær 20 vinningar í boði, hver öðrum glæsilegri. Fór aldrei svo að forseti samtakanna dytti ekki í lukkupottinn og vann nuddtíma, eða eitthvað svoleiðis. Hér sést hún taka fagnandi á móti umslaginu.

Málsverðurinn tókst frábærlega. Ekki er búið að birta tölur ennþá, en ég skýt á að hátt í 20.000 Namibíudalir hafi safnast, en það jafngildir 320.000 krónum. Nú byrjar alvaran, því koma þarf peningunum þangað sem þörfin er mest. En undir styrkri stjórn Gullu efast ég ekki um að það takist.

Til hamingju Gulla með frábæra samkomu.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já hún systir mín er sko kjarna kelling:-) Gaman ad lesa og sjá myndir af velheppnudum degi, koss og knús frá Norge

Nafnlaus sagði...

klapp fyrir Gullu minni, þetta er ekkert smá flott enda kjarnakona þarna á ferð hehe

Nafnlaus sagði...

Kjellan klikkar ekki!
Elli

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...