Rétt í þessu sat ég í rólegheitum að snæða kvöldverð og hlusta á Reykjavík síðdegis í gegnum tölvuna. Úti var úrhellisrigning og þrumur og eldingar. Vindhviður miklar öðru hverju.
Allt í einu sá ég að útidyrnar hjá mér byrja að opnast. Voðaleg læti í vindinum, var það fyrsta sem mér datt í hug. En svo vissi ég ekki fyrr en lítið stúlkubarn dettur bara inn um dyrnar hjá mér. Hágrátandi.
Þetta var á að giska þriggja ára stúlka, klædd í náttföt. Ósköp falleg lítil stúlka með fléttur í hárinu. Hún hágrét og ekkasogin svakaleg.
Ég stökk auðvitað til, tók barnið upp og reyndi að róa það. Kíkti út en sá ekki nokkurn mann á ferli, enda ekki beint veður til þess að sóla sig.
Íbúðin sem ég bý í er hluti af litlum íbúðakjarna, sex útleiguíbúðir á sömu lóðinni. Allar með sér inngang og maður verður lítið var við aðra gesti. En þó er sameiginlegt hlað og bara eitt hlið til að komast út af svæðinu.
En ég fór að spjalla við stúlkuna, og hún róaðist aðeins. En ég fékk þá tilfinningu að hún skildi ekki ensku. Var að reyna að segja mér eitthvað en ég skildi ekki neitt. Ég náði mér í skó og rölti svo út með stúlkuna í fanginu. Fannst að einhver hlyti að vera að leita að þessu fallega barni.
Rakst á fólk sem var að bera töskur út í bíl. „Þekkið þið þetta barn?” spurði ég. Kona þar horfði á mig og spurði hvað ég meini. Jú, þessi stúlka hafi bara dottið inn um dyrnar hjá mér og ég sé að leita að fjölskyldunni. Konan hristi hausinn. „Þú ert að grínast,” staðhæfði hún. „Þú þekkir þessa stúlku. Annars myndi hún grenja í fanginu á þér.”
Þetta þótti mér skrýtið. Ókei, stúlkan grét ekki lengur. Hefur líklega fundið á sér að ég var að reyna að hjálpa henni. En hvers konar grín væri það að labba út með lítið barn, klætt í náttföt, í grenjandi rigningu og þykjast vera að leita að ættingjum barnsins? Ég bara spyr.
Ég sneri mér frá þessu fólki og fór að kíkja á aðrar íbúðir. Allt í einu heyrði ég hratt fótatak. Einhver á opnum sandölum. Kom eldri kona á fullri ferð, og með mikinn áhyggjusvip, niður tröppur frá íbúð nr. 5. Stúlkan litla þekkti konuna greinilega og teygði hendurnar til hennar. Ég lét barnið fúslega af hendi. Gamla konan var greinilega í mikilli geðshræringu. „Obrigadas,” sagði hún við mig. Portúgalska. Hún er þá líklega frá Angólu og þar með komin skýring á því af hverju stúlkan skildi ekki ensku. Ég klappaði konunni á öxlina og sagði henni að allt væri í lagi. Hún skildi mig örugglega ekki.
Ég var léttstígur upp tröppurnar heim að minni íbúð.
Leið vel.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
ahhhh.. :)))
Skrifa ummæli