4. janúar 2011

Tæknivæðing eiginkonunnar

Gulla hefur ætíð óttast farangursvigtir á flugvöllum. Ekki veit ég hvaðan þessi ótti kemur, en hef stundum velt fyrir mér hvort sé ekki til eitthvað flott fræðiheiti, helst á latínu, yfir svona tilfinningu.

Í hvert skipti sem einhver úr fjölskyldunni ferðast, þá er náð í baðvigtina og allar töskur vigtaðar. Þetta er oft töluvert vandaverk, því baðvigtir eru jú ekki gerðar til að vigta töskur. Gæta þarf að taskan snerti hvergi gólf og síðan þarf auðvitað að vera hægt að lesa á vigtina. Stundum gengur þetta illa.

En, alltaf þarf að gera þetta. Breytir engu þótt ég segist einfaldlega borga þá yfirvigt sem komið gæti. Nei, töskur skulu vigtaðar, og síðan er velt fyrir sér hvort vigtin sýni nú örugglega rétta tölu.

Doddi mágur hefur lent í svona meðferð hjá systur sinni. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Því kom í sjálfu sér ekki á óvart einn jólapakkinn frá honum.

Farangursvigt.

Sú lítur svona út.


Þetta er alveg brillíant tæki. Taskan hangir á króknum og svo er henni lyft frá gólfi. Bíður maður síðan eftir að græjan pípi, en þá er kominn álestur. Á apparatinu er þessi fíni stafræni gluggi, sem gefur einn aukastaf eftir kíló.

Núna fyrr í dag þá reyndi í fyrsta sinn á tækið. Tinna Rut var á leið til Kanada.

Taskan vigtuð.

En hún elsku Gulla mín var ekki alveg sátt. Nei, eitthvað þótti henni talan lág.

Hvað gerði frúin?

Jú, náði í baðvigtina.

Svo var farið í gegnum alla seremóníuna. Taskan vóg salt á vigtinni og svo var reynt að lesa á tölurnar. Það gekk ekki vel, því baðvigtin er ekki neitt sérstaklega nákvæm.

Aftur var farangursvigtin prófuð. 21,9 kg sýndi hún.

Í Keflavík fór svo taskan á vigt eins og lög gera ráð fyrir. Ekki var laust við að sumir héldu niðri í sér andanum.

21,9 kg.

Ætli baðvigtin fái frí næst?

2 ummæli:

Hjúkrunarkonan sagði...

Vááá ég vissi ekki einu sinni að svona apparat væri til. Hún Gulla mín fær nú aldeilis að vigta stóru töskuna mína þegar ég fer aftur heim eftir verknámið mitt... það eru jú útsölur um alla borg akkurat á verknámstímabilinu haha :)))

Gulla sagði...

Þetta er snilldartæki, ekki spurning

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...