6. október 2013

Ferðafár

Þessi orð eru skrifuð um borð í flugvél Loftleiða þeirra Suður-Afríkumanna. Flug SA 9234. Flugnúmerið var SA 234, en tölustafurinn 9 táknar að þetta er flug sem hefur seinkað. Ekki nóg með það, heldur hefur seinkunin teygt sig yfir á næsta dag og til að rugla ekki saman við flug 234 þess dags, er níunni skellt fyrir framan.

Forsagan er sú að ég er á leið til Íslands. Átti að yfirgefa Jóhannesarborg skömmu eftir klukkan átta að kvöldlagi. Á laugardagkvöldi. Meiningin var síðan að lenda á Heathrow flugvellinum í Lundúnum ríflega sex næsta morgun. Sunnudag. Drepa síðan tímann í sjö klukkustundir eða svo áður en ég tæki á loft með Flugleiðum. Lending heima klukkan þrjú á sunnudagseftirmiðdegi. Svo á mánudagsmorgni að mæta til vinnu á heimaskrifstofu, eins og við sem vinnum í útlöndum segjum.

Flott plan,ekki satt?

Jú, jú, nema það klikkaði.

Allt leit ósköp vel út í gærkvöldi. Ég kom út að hliði þremur korterum fyrir brottför og svo tíndust allir farþegarnir um borð. Meira og minna á réttum tíma tók vélin á loft. Sem hún hækkar flugið smátt og smátt, og yfirflugfreyjan var að segja okkur fyrirkomulag veitinga, þá greip flugstjórinn af henni orðið. Smávandamál með lendingarbúnaðinn, og hann þurfi að prófa eitthvað sem muni framkalla hávaða. ,,En ekkert til að hafa áhyggjur af," sagði hann.

Einhver hávaði heyrðist og einhverjum mínútum síðar tilkynnir flugstjórinn að fréttirnar séu slæmar. Lendingarbúnurinn standi á sér og lokist ekki. Því þurfi að snúa við og lenda aftur í Jóhannesaborg. Ekkert þurfi að óttast lendinguna því hjólin séu föst niðri og því bara venjuleg lending. Þó fylgdi sá böggull skammrifi að vélin sé of þung til að lenda henni og því þurfi fyrst að eyða bensíni með hringsóli.

Hringsólið varð klukkustundar langt og svo var lent. Flugstjórinn hafði rétt fyrir sér. Lendingin var eins og hver önnur.

Auðvitað er ég feginn að vandamálið var ekki alvarlegra. T.d. ef lendingarbúnaðurinn hefði fests uppi. Hvernig hefði þá verið lent?

Svo þurfti að bíða meðan flugvirkjar skoðuðu hvað væri bilað. Kannski væri hægt að gera við það, einn, tveir og þrír og fljúgja svo aftur af stað.

En, ekki var það svo gott. Sex til átta tíma viðgerð. Því var öllum skipað út úr vélinni, sagt að sækja töskur og síðan yrði gistingu reddað. Brottför ætti síðan að reyna klukkan níu, næsta morgun. Þegar þarna var komið sögu var klukkan farin að ganga ellefu um kvöldið.

Fyrst þurfti auðvitað að fara í gegnum vegabréfsskoðun. Við jú að fara aftur inn í landið. Svo finna töskur. Síðan að arka út að almenningssamgangasvæði flugvallarins, er þar komu litlar bílaskutlur til að koma okkur öllum á hótelið.

Já, það fannst sem sagt hótel, eitt stykki, sem gat tekið á móti heilum flugvélarfarmi af fólki. Hlýtur að hafa þurft 200 herbergi til þess arna.

Ég var heppinn. Taskan mín kom frekar hratt og ég var í skutlu númer tvö. Fékk strax herbergi og gat komið mér fyrir. Klukkan var farin að nálgast miðnætti þarna. Ég settist þá niður með tölvuna og fór að skoða flugáætlanir. Reiknaði út að ef brottför yrði ekki mikið seinna en 9, þá myndum við lenda skömmu fyrir sjö á sunnudagskvöldinu. Kvöldvél Flugleiða fer rúmlega níu, þannig að mögulega gæti þetta gengið.

Ég sendi einhverja tölvupósta, og elsku Gulla fékk það hlutverk að ganga í málið, þegar Flugleiðafólkið mætir til mætir til vinnu. Öllu þarf hún að redda blessunin.

Þegar ég fór inn á herbergi um hálfeitt, voru farþegar enn að koma frá flugvellinum. Búnir að standa í biðröð í lengri tíma að bíða eftir fari. Enda var ekki létt á þeim brúnin.

Morgunmatur klukkan fimm og fyrstu rútur áttu að leggja af stað hálfsex út á völl.

Ég náði að sofa í svona þrjá og hálfan tíma. Sturta og mætti svo með töskur og alles í morgunmatinn. Fullt af fólki mætt. Svo gekk nú ekki sérlega vel að koma okkur skipulega í bílana. Grunnt á því góða hjá sumum. Ég fékk á tilfinninguna að ekki þyrfti mikið útaf að bera til að sumir myndu missa stjórn á sér.

En ég komst á flugvöllinn. Þar tók við heljarinnar biðröð til að fá brottfaraspjald og koma töskunni af sér. Þetta hafðist nú. Einn farþeginn ætlaði hreinlega að hjóla í eina konu sem vinnur hjá flugfélaginu. Sú sagði eitthvað út af þyngd töskunnar, held ég. Kveikiþráðurinn var örstuttur hjá þessum. En hann sá nú að sér að lokum. En mikið var hann reiður.

Svo gat ég loksins slakað á og fengið mér kaffibolla. Vafrað á netinu og svoleiðis.

Svo hófst bið við hliðið. Loksins þegar klukkuna vantaði 25 mínútur í níu var hleypt um borð. Það gekk vel. Allir sestir inn þegar tilkynnt var að enn væri verið að setja matinn okkar um borð. Það virðist klárast, en samt leið og beið. Þá var tilkynnt að mat vantaði og verið væri að sækja viðbót.

Og alltaf leið klukkan. Maður stoppar hana jú ekkert.

Á endanum var ekki lagt af stað fyrr en klukkan farin að nálgast hálf ellefu.

Öll von, held ég, er úti um að ná kvöldvélinni. Áætlaður komutími 20:30. Allt útaf einhverju klúðri með matinn. Næstum því heill fótboltaleikur fór í hann.

Er von að maður sé fúll?

Þvílíkt getuleysi að geta ekki skipulagt svona nokkuð. Ekki er eins og flugfélög taki aldrei mat um borð... eða hvað?

Ég sé því fram á nótt í Lundúnum og heimför á mánudagseftirmiðdag.

Þar til annað kemur í ljós.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...