12. ágúst 2006

Eldhúsmál

Skömmu eftir við fluttumst hingað, þá ræddi ég um eldhúsið við eiganda hússins sem við búum í. Mér þótti það alveg mega við smávegis upplyftingu, appelsínugular skáphurðir og gular veggflísar. Eitthvað frá fyrri hluta áttunda áratugarins, ef ekki eldra. Eigandinn, sem er ósköp almennileg kona, þrátt fyrir að vera fasteignasali :-) , melti þetta í einhverja mánuði og ákvað svo að láta skipta um skápahurðir og borðplötur. Skemmst er frá að segja að hún varð mjög óánægð með útkomuna, og eftir fundarhöld með mér og eiganda eldhúsinnréttingaverslunar þá var ákveðið að við Gulla færum að skoða eldhúsinnréttingar. Við eyddum tveimur tímum í morgun í versluninni og virðist allt stefna í gjörbyltingu í eldhúsmálum.

Þetta var nú svolítið merkileg lífsreynsla. Að ákveða hvernig maður vill hafa eldhúsið sitt, en þurfa ekki að borga neitt. Hafa engan snefil af tilfinningu fyrir verðum. En við ákváðum bara að njóta þess. Líklega ekki oft sem svona tækifæri gefst.

En svolítið er skondið með konuna sem á húsið. Hún rekur fasteignasölu, sem fyrr sagði, ásamt nokkrum sonum sínum. Hún er voðalega sparsöm, af gamla skólanum segir hún, og vill alltaf reyna að nýta það sem fyrir er. Synir hennar hins vegar, skilja ekkert í þessum nánasarhætti í móður sinni og reyna að telja henni trú um að best sé að henda út gömlu drasli og setja nýtt í staðinn. Þeir virðast hafa vinninginn sem stendur í eldhúsmálum, enda var móðirin mjög ósátt við eldhúsið eftir breytingarnar. Við njótum því góðs af sem stendur.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú hvernig væri þá að sjá fyrir og eftir mynd !!!!!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...