Kominn sunnudagsmorgunn. Við Rúnar Atli vöknuðum fyrstir, bökuðum vöfflur og hámuðum þær í okkur með sultutaui. Drukkum te með. Lítið af vöfflum eftir handa hinum ;-)
Annars er ég með hálfgerða strengi í framhandleggjunum. Þannig er að Tinna Rut hefur um nokkurt skeið akíderað fyrir því að skipta um herbergi. Hún hefur augastað á herbergi bróður síns. Auðvitað er hún búin að plana allt og sér fyrir sér að hann, kallanginn, lendi í minnsta herberginu í húsinu. Eftir eldhússkipulagið í gær, þá voru hönnunarsellurnar í fullum gangi hjá okkur öllum og ákveðið var að drífa bara í þessu. Helsta vandamálið var að Tinna Rut sankar að sér alls konar „verðmætum“ og því tók nokkurn tíma að vinna að þessu. Ég fór í að skrúfa í sundur barnarúmið og setja það aftur saman. Síðan þurfti að burðast með stærðarinnar skáp sem Tinna Rut vildi endilega fá með sér. Við drösluðum honum upp tröppurnar fimm í herberginu gamla, einungis til að uppgötva að hann komst ekki út um dyrnar. Góð ráð voru dýr, en sem betur fer eru dyr út í garðinn sem hægt var að nota. Skápurinn fór því aftur niður, út um garðdyrnar, upp tröppur á veröndina, þaðan inn í stofu, upp fleiri tröppur, inn ganginn og komst svo loksins á leiðarenda. Skýrast strengirnir í framhandleggnum af þessu.
En flutningarnir kláruðust að mestu leyti í gær. Einungis tölvuborðið eftir. Nú verður sem sagt skrifstofan okkar í gamla herberginu hennar Tinnu, Tinna komin í gamla herbergið hans Rúnars Atla og svo Rúnar Atli kominn í gömlu skrifstofuna. Hann svaf vært í nótt. Þegar við spurðum hann hvort hann hefði sofið vel, sagði hann: Jáhh.
2 ummæli:
Dugnaður er í liðinu í Nambibíu...
Hvernig væri að fá einhverjar breytingar hérna á blogginu?
Skrifa ummæli