Eitt af því sem angrar okkur geðgóðu hjónin eru brauðmál í borginni. Ekkert mál er að skreppa út í búð og kaupa volg rúnnstykki eða splunkunýtt brauð. Gallinn er hins vegar sá að næsta morgun eru þessi sömu rúnnstykki orðin þvílíkt seig undir tönn að áhuginn fyrir að fá sér brauðmeti með morgunteinu er sára, sáralítill.
Um daginn vaknaði sú hugmynd hjónanna að fá sér brauðvél. Reyndar höfum við einu sinni átt þvílíkan grip. Var það í Vankúver fyrir mörgum, mörgum árum síðan. Þar var mikil samkeppni verslana á milli, sem lýsti sér meðal annars í því að innan mánaðar frá kaupum á heimilistækjum mátti skila þeim. Kvittunin þurfti að sjálfsögðu að fylgja með, og líka pakkningin. Engar útskýringar þurfti að gefa, bara mæta og skila og var endurgreitt möglunarlaust.
Brauðvélinni var skilað.
Við komumst aldrei upp á lagið með að nota hana. Í Vankúver var líka hægt að kaupa brauð með þvílíku magni af rotvarnarefnum að brauðið hélst sem nýtt væri í a.m.k. tvær vikur.
En nú eru hjónin orðin miklu reyndari og þroskaðri. Ákváðum við því að ráðast í kaup á gæðabrauðvél. Kenwood BM210 fyrir kunnáttufólk. Alls kyns stillingar sem hægt er að nota. Líka tímarofi, þ.a. hægt er að vakna við ilmandi brauð í morgunsárið.
Verður þó að viðurkennast að notkun vélarinnar er ekki alveg eins einföld og af er látið. Við fórum meira segja á Jútjúb og fundum þar heilmikið af kennslumyndum um notkun brauðvéla. Greinilegt er að bandarískum húsmæðrum leiðist mörgum hverjum á daginn. Virðast þær því stunda það að framleiða fræðsluefni úr sínu eigin eldhúsi og setja á netið. Okkur hinum til gagns og gamans.
Jæja, en í gær var fyrsta tilraun gerð. Hún tókst ekki vel. Einhverra hluta vegna setti ég of lítið af hráefnum í vélina. Deigið náði sér aldrei á strik og var bakað of lengi. Sem sagt, lítill samanþjappaður brauðkubbur með svakalega harðri skorpu var útkoman. Þó mátti með góðum vilja finna að brauðið var nokkuð gott á bragðið. Ja, svona inn við miðju. Svona svipað og þegar sagt er að fólk sé gott inn við beinið. Vitavonlaust, en einhvern ljósan punkt þarf að finna.
Ekki þýddi að gefast upp. Komst ég að því að það eru til ótrúlegustu afsakanir til að útskýra hvers vegna bökun í brauðvél klikkar. T.d. get ég haldið því fram að hafa gleymt því að vera í 1.600 metra hæð yfir sjávarmáli. Sá sem prófaði uppskriftina var örugglega niður við sjávarmál og þarf að taka tillit til þess. Nú svo hefur rignt mikið, þ.a. rakastig í Vindhúkkborg er nokkuð hátt. Það hefur örugglega haft sitt að segja.
En í hádeginu var hent í aðra uppskrift. Fyrstu tveir og hálfu klukkutímarnir lofuðu mjög góðu. Brauðið lyfti sér sem aldrei fyrr og spenningurinn var mikill. Þegar ég kom heim úr vinnunni, stökk ég inn og tók þrjú þrep í hverju skrefi. Aðeins þó til að sjá elsku konuna mína miður sín. Brauðið féll...
Of mikið hráefni í þetta sinn, hljóðaði Salómonsdómurinn.
Þegar þetta er ritað, er búið að setja í þriðju vél. Ekki þýðir að gefast upp. Fórum milliveg að þessu sinni. Nú mun það takast. Vélin byrjar að hnoða um tvöleytið í nótt, þ.a. þegar ég fer framúr, svona skömmu fyrir hálfsex, verður þetta líka gæðabrauð tilbúið.
Ég er strax farinn að sleikja útum...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
2 ummæli:
hahahhaaa hlakka til að lesa um hvernig gekk i 3 sinn....
Þetta er bráðsniðugt. Hvernig gekk svo? Við bíðum spennt eftir morgunverðarboði..
Skrifa ummæli