Eins og gengur þá skreppum við oft í búðir. Rúnar Atli vill þá gjarnan
halda á einhverju sem á að kaupa. Stundum er hann t.d. að drekka djús í
búðinni sem þarf síðan að greiða við kassann. Þá segi ég oft við hann
að nú skuli hann láta konuna hafa hvað sem hann nú er með. Það þurfi að
borga. Gerir hann þetta yfirleitt möglunarlaust.
Í morgun kíktum við í bókabúð og fékk hann eina bók. Hélt hann á henni
á meðan við Tinna Rut vorum að skoða bækur og blöð fyrir okkur. Svo
komum við að kassanum og þurftum að bíða þar aðeins. Fer þá ekki
drengurinn að kalla, kona, kona! Enginn hér skilur þetta, þ.a. ég segi
svo við Rúnar Atla, afhverju segirðu ekki halló við konuna? Hann prófar
það, og viti menn, konan svarar hello til baka.
Flott fannst honum þetta. Síðan erum við aðeins á rúntinum og Rúnar
Atli með opinn glugga. Við staðnæmumst á rauðu ljósi þegar hann fer
allt í einu að gjamma út um gluggann: Kona, halló, kona!
Ég ýtti snöggt á bensínið og brunaði í burtu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli