Í suðlægum löndum er ekki hjá því komist að hafa nokkuð samneyti við skordýr. Líklega eru ekki mörg lönd þar sem eins lítið af skordýrum gera sig heimakomin inni á gafli hjá manni eins og á Fróni.
Hér í Namibíu er töluverður fjöldi af skordýrum. Með tímanum höfum við vanist þeim og kippum okkur lítið upp við einn og einn kakkalakka eða þessháttar kvikindi hlaupandi upp um veggi.
En undanfarið er okkur farið að þykja nóg um. Maurar nokkrir eru farnir að færa sig allmikið upp á skaftið, ja, svo hátt að við þurftum að bregðast við. Reyndar er ekki nýtt að maurar séu á vappi inni hjá okkur. Þetta eru ósköp lítil grey, kannski tveggja millimetra löng, og hafa lítið farið í taugarnar á okkur. En fyrir kannski tveimur vikum varð hálfgerð sprenging í fjölda þeirra. Voru heilar hersveitir komnar upp á eldhúsborð að sækja sér góðgæti. Ekkert þýddi að úða eitri á sveitirnar, jú, reyndar dugði það í nokkra klukkutíma, en svo fór allt í sama far. Í sjónvarpsherberginu okkar er ekki ofsögum sagt að maurarnir hafi skipt þúsundum.
Svo rammt hvað að þessu að ég átti fullt eins von á því að vakna einn daginn úti á hlaði - að maurarnir bæru okkur út í orðsins fyllstu merkingu. Þegar þeir voru svo farnir að narta í tærnar á mér þegar ég sat við tölvuna, þá var mér endanlega nóg boðið.
Á páskadag ákvað ég að snúa vörn í sókn. Eftir að ráðfæra mig við ýmsar netsíður, þá fór ég að sjóða vatn. Sauð tugi lítra af vatni og hellti vatninu þar sem mér leist á að maurabú væru. Mér er ekki vel við að hella einhverju eitri ofan í jörðina, en heitt vatn ætti að vera í lagi, svona umhverfislega séð. Sjóðandi vatnið olli auðvitað hamagangi hjá maurunum. Og miklu maurafalli. En svona er lífið.
Í morgun var lítið af maurum inni hjá okkur. Mér sýnist vatnið virka, en á von á að þurfa að halda baráttunni áfram einhvern tíma. Orrustan vannst, en stríðið er líklega enn í fullum gangi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
Sæll Villi - maurum er illa við kanel - ég stráði kanel út um allt hjá mér og það hélt þeim á mottunni, líka þola þeir víst illa myntu.
Vonandi ertu laus við óværuna, bestu kveðjur frá Þýskalandi - Árný túlkur :)
Skrifa ummæli