4. mars 2006

Heilsufar Tinnu Rutar

Hún Tinna Rut gaf mér smáinnspýtingu af adrenalíni í síðustu viku, á
föstudegi fyrir viku, nánar tiltekið. Ég var á leið til Katutura, sem
er fátækrahverfið hér í Windhoek, þegar gemsinn hringir allt í einu. Á
línunni - segir maður svoleiðis um gemsa? - var kona frá skólanum
hennar Tinnu og bað mig að koma hið snarasta því það hefði liðið yfir
hana dóttur mína í skólanum. Auðvitað var snúið við á punktinum og
brunað í skólann. Hún Tinna mín var þar ósköp óstyrk og föl, en virtist
í þokkalegu lagi engu að síður. Ég fór síðan með hana heim. Helst datt
mér í hug að þetta hefði gerst því hún borðaði engan morgunmat áður en
hún fór í skólann. Fær sér yfirleitt lítið í morgunmat, en þennan dag
voru próf, svo mér datt í hug að sambland af orkuleysi og stressi hefði
ollið þessu.

Nú það var farið af stað að plana morgunmatargjafir, hvað annað? Ekki
hægt að láta spyrjast út að „einstæði" faðirinn gefi ekki börnunum
sínum að borða. Því var keypt ný brauðrist og líka samlokugrill, og
alla þessa viku hefur eitthvað brauðmeti verið á boðstólunum. Síðan
bökuðum við kleinur á sunnudaginn, og hafa þær líka verið nýttar í
morgunmat og nesti. Hefur þetta virkað ágætlega, a.m.k. engin meiri
yfirlið.

Síðan fær hún Tinna mín einhverja magakveisu núna á föstudaginn. Er
nývöknuð þegar hún kastar upp og er hríðskjálfandi hér eldsnemma
morguns. Ég hafði verið slappur deginum áður, þ.a. ég var nú á því að
einhver flensa væri í gangi. Niðurstaðan verður því að hún fer ekki í
skólann. Auðvitað hringi ég hana inn veika og er sagt að einhver óværa
sé að ganga. Hins vegar er ég beðinn um að senda hana með læknisvottorð
þegar hún mæti næst í skólann, því á föstudögum eru alltaf próf og öll
forföll þarf að sannreyna.

Úff, eilíft vesen að eiga börn, segiði.

Ég fer því að reyna að hafa upp á gamla heimilislækninum okkar, þýskri
eldri konu, svona ein sem hlustaði ekki á neina vitleysu. Þá kemur úr
kafinu að hún er hætt störfum og búin að selja stofuna. Við fáum því
tíma á laugardagsmorgni hjá nýja lækninum. Sá reynist líka vera þýsk
kona, doktor Martína. Hún skoðar TInnu í bak og fyrir og kemst að því
að hún er með of lágan blóðþrýsting. Er þar víst komin orsök
yfirliðsins, að stundum sé þrýsingurinn það lítill að blóðflæði til
höfuðsins sé það lítið að fólk fái svima og jafnvel líði yfir það. Er
þetta víst algengt ástand hjá unglingsstúlkum.

Nú á Tinna Rut því að fá sér te - alvöru te, ekkert grænmetis- eða
ávaxtasull, heldur eitthvað eins og Earl Grey eða English Breakfast - á
morgnana. Te kemur víst þrýstingnum af stað í rólegheitum og heldur
honum uppi í góða stund. Svo á hún að þamba vökva og sér í lagi er
epladjús víst góður.

Móðir hennar sagði eftirfarandi þegar hún heyrði af tedrykkjunni, og ég
enda á þessari tilvitnun: „Ég sé hana í anda með tebolla og dreypa á
góðum vökvanum með litla putta útí loftið :-) "

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...