5. mars 2006

Tónlistarpælingar

Kominn sunnudagur. Rúnar Atli vakti mig kortér fyrir sjö og réðst svo
til atlögu við Tinnu Rut þremur kortérum síðar. Skellti svo í
vöffludeig, enda kominn tími á að vígja vöfflujárnið sem Gulla keypti
sérstaklega til að nota í Namibíu. Einhverra hluta vegna eru vöfflujárn
ekki á hillum raftækjaverslana hér. A.m.k. hefur okkur ekki tekist að
finna svoleiðis hlut. En, í dag var sem sagt stundin runnin upp og
gæddum við okkur svikalaust á þessum gæðavöfflum. Reyndar fannst ekki
neitt sultutau í húsinu, sama hversu mikið var leitað. Bara næst -
strásykurinn stendur vel fyrir sínu á vöfflum.

En við fórum svo í búðarráp. Tinna Rut fékk nefnilega vasapeningana
sína fyrir mánuðinn í gær, svo hana var farið að klæja í fingurgómana
að kaupa sér eitthvað. Hún dró mig fyrst inn í tónlistarbúð, Musica
heitir hún, sem ég er nú frekar lítið hrifinn af, svo ekki sé meira
sagt. Eins og í öðrum tónlistarbúðum er jú alltaf einhver
graðhestatónlist í botni svo ekki heyrist mannsins mál. Maður þyrfti
eiginlega að kunna táknmál þegar maður álpast inn í svona verslun. Hvað
um það, engin breyting í þetta sinn, einhver alveg þvílík
hjartaáfallsvaldandi tónlist glumdi í eyrum manns þegar fæti var drepið
inn fyrir dyrnar. Tilfinningin er svona svipuð og að reyna að halda sér
í kafi lengi, maður dregur andann djúpt, stekkur á bólakaf og reynir að
leiða hjá sér köfnunartilfinninguna sem þrengir sífellt meira að. Ég
huggaði mig nú við það að Tinna Rut er nú nokkuð með á hreinu hvaða
tónlist hún vill eignast, svo yfirleitt tekur þetta nú ekki langan
tíma. En viti menn, eftir smátíma fer ég allt í einu að veita því
eftirtekt að búið er að skipta um plötu á fóninum og eitthvað alveg
nýtt og óvænt í gangi. Einhver undarleg en seiðandi útgáfa af Losing my
religion sem REM gerði frægt hér um árið. Ég fer nú að sperra eyrun og
velta þessari tónlist fyrir mér og rek síðan augun í stall á
afgreiðsluborðinu þar sem platan sem verið er að spila þá stundina er
sýnd. Þá voru þetta gregorísku munkarnir - veit reyndar ekki hvort
þessir náungar eru munkar í rauninni - og á þessum diski flytja þeir
ýmis þekkt rokklög. Ég lét síðan bara undan pressunni og keypti diskinn
á staðnum. Hann Ingólfur sparnaðargúrú hefði ekki verið ánægður með mig
þarna.

Nú sit ég því við tölvuna, pikka þetta inn, og hlusta á þessa undurværu
munkatónlist í gegnum heyrnartólin.

Og líður bara vel.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...