19. maí 2008

Facebook

Öðru hverju hef ég heyrt um eitthvað sem kallast Facebook (http://www.facebook.com). Félagstengslanet einhvurslags á netinu og er víst langsamlega besta leiðin til að halda sambandi við vini og kunningja. Miklu betra en að hitta þá á kaffihúsum eða krám eða tala við þá í síma. Nei, Facebook er málið. Meira að segja var heilmikið um þetta fyrirbæri í Economist um daginn, og ekki skrökvar Economist. Ekki frekar en Mogginn.

Hins vegar hefur mér gengið frekar illa að átta mig á því hvað maður gerir á þessari Facebook. Ákvað að spyrja Tinnu Rut hvort hún væri á Facebook. Hún hélt það nú. Undarlegar og fáránlegar spurningar sem þessir foreldrar spurja stundum. Hún opnar víst Facebook á hverjum einum einasta degi og á einhver samskipti við vini sína. Ég fór að pumpa hana hvað maður geri eiginlega á þessari Facebook. Frekar fannst mér fátt um svör, nema þó að þetta væri alveg bráðnauðsynlegt tæki í lífsbaráttu fólks í dag.

Ókei.

Allt í einu nefnir hún þó við mig að fyrrum nágrannakona okkar af hjónagörðunum frá háskólanum í Kanada hefði fundið hana í gegnum þessa Facebook. Súsan heitir sú. Tinna Rut hafði alveg gleymt að segja okkur Gullu frá þessu, en þarna rifjaðist þetta upp. Ég varð alveg steinhissa - hvernig er hægt að hafa upp á dóttur nágranna sinna 12 árum síðar, dóttur sem þá var rétt fjögurra ára?

En þetta kveikti í mér og nú er ég sem sagt kominn í hóp félagstengslafólksins! Búinn að stofna mitt svæði á Facebook og bíð núna bara eftir því að fyrrum vinir hrannist inn að spjalla. Er a.m.k. búinn að hafa upp á þessari Súsan og bíð núna bara eftir að hún samþykki mig sem vin sinn.

Býð ég nú öllum þeim sem lesa þessar dagbókarfærslur mínar og eru með sitt Facebook svæði að bjóða mér að gerast vinur. Leitið að wiium á Facebook og ég mun líklega poppa upp á leitarsvæðinu.

Ja, ef fólk hefur áhuga að bjóða mér í sýndarkaffi.

2 ummæli:

Litið blogg úr villta vestrinu sagði...

Ég er á facebook..... en nota ekki síðuna... finnst það hálf kjánalegt allt saman

Nafnlaus sagði...

Þarna hef ég dregið mörkin...
...ennþá.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...