19. desember 2010

Lundúnavist

Skrapp í strætóferð í dag. Aðalástæðan var að kaupa yfirhöfn af einhverju tagi. Það gengur varla að storka örlögunum mikið lengur með því að flækjast út um allt á stuttermaskyrtu.

Ég fór sem sagt í strætó. Spurði konu á stoppustöðinni ráða, því ég var ekki alveg viss hvaða vagn ætti að taka. Hún sá greinilega aumur á mér, því hún lagði mér lífsreglur og sá til þess að ég kæmist klakklaust á Laugaveg þessa hverfis sem ég er í. Kona þessi er líklega frá einhverri eyju úr karabíska hafinu ef dæma má af hreimi hennar.

Á leiðinni í strætó velti ég því fyrir mér hvernig væri að búa í Lundúnum. Komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri ekki eftirsóknarvert. Mér finnst einfaldlega ekkert við Lundúnir aðlaðandi. Það bara ekki flóknara en það.

En mér tókst þó að finna yfirhöfn sem ég er ánægður með. Svo er bara að sjá hvernig Gullu líkar við ,,töffarajakkann.''

Ég rölti svo um bæinn í smástund, fylgdist með mannlífinu og keypti jólagjöf eða tvær. Það verður að segjast að fjölbreytni mannlífsins hér er forvitnileg. Ekki veit ég hversu mörg tungumál ég heyrði á þessum stutta miðbæjarrúnti, en mörg voru þau. Síðan fór mér að kólna á tánum og þar með fór ég að sakna veðurlagsins í Windhoek. Þá var tími að finna strætóinn til baka.

Ég náði sambandi við Icelandair skrifstofuna heima. Stefnt er á að fljúgja héðan klukkan níu í fyrramálið. Mikið vona ég að það gangi eftir, því mér hundleiðist að hanga hérna einn rétt fyrir jólin. Allt sem krossleggja er hægt er því krosslagt með þá von í huga að skömmu eftir hádegi heyri maður fleygu orðin:

,,Kæru farþegar, velkomin heim.''

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...