Einstaka sinnum í þessum dagbókarbrotum mínum hef ég nefnt að hafa fundið staði sem gætu vel verið paradís. Þessir staðir eiga allir samnefnt að vera í Afríku. Ætli ég verði ekki að bæta Keníu við á þennan paradísarlista minn.
Núna sit ég úti í garði á hótelinu, Rauða torgið nefnist það, nýbúinn að snæða kvöldverð. Veðrið er akkúrat eins og ég vil hafa það, rúmlega 20 gráður og smágola. Gin og tónik í glasi, havð annað? Síðan óma tónar frá sönglagatríói, sem er hér í garðinum að spila og syngja. Mærin frá Mexíkó held ég, svei mér þá. Mér dettur helst í hug Ríó tríó þegar ég hlusta á þessa drengi. Flytja fína blöndu af afrískri tónlist og vestrænum lögum flestum frá áttunda áratugnum. Einn spilar á kassagítar, annar á rafmagnsgítar og sá þriðji slær trépinna á pínulítill trékassa, sem rúmast í lófa, og heldur þannig taktinum að mér virðist.
Paradís á jörðu?
Sú gæti í það minnsta litið einhvern veginn svona út.
Verst að ég sé einn á flækingi hérna, skemmtilegra væri ef Gulla væri með.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli