Alltaf finnst mér gaman að koma á nýja staði. Sjá eitthvað nýtt. Nú er ég lagður af stað í svoleiðis ferðalag. Í því sem ég byrja að skrifa þetta sit ég í flugvél frá Loftleiðum Keníu, rétt kominn á loft frá Kamuzu flugvellinum fyrir utan Lílongve. Gömul flugvél verður að viðurkenna. Boeing 767-300, fyrir þá sem hafa áhuga á svoleiðis. En ég var svosum viðbúinn og hef mína eigin afþreyingu í farteskinu. Svo er viðmót starfsmanna kenísku Loftleiðanna mjög gott. Alveg til fyrimyndar, svo aldur flugvélarinnar skiptir nú litlu. Enda kallar flugfélagið sig stolt Afríku, hvorki meira né minna. Eitt fannst mér reyndar mjög flott. Í öryggismyndinni sem sýnd er fyrir brottför þá er táknmálstúlkur í einu horninu sem túlkar það sem sagt er. Gott framtak.
Ég er núna á leið til Lúsöku í Sambíu, en þar verða pikkaðir upp farþegar fyrir áframhaldandi flug til Næróbí, höfuðborgar Keníu. Þar gisti ég í nótt og held síðan ferðalaginu áfram. Liggur þá leið til Akkra - kannski væri réttara að segja Ökkru - höfuðborgar Gönu. Þar er aftur smástans til að hleypa farþegum út og inn áður en ég held áfram til míns áfangastaðar, Monróvíu í Líberíu.
Í Monróvíu verð ég í eina viku að spjalla um stefnumál í fiskveiðum og eitthvað í þeim dúr. Á laugardag eftir viku stíg ég aftur upp í flugvél og þræði sömu leið til baka.
Að Lúsöku undanskilinni hef ég aldrei á þessa staði komið og er því spenntur fyrir ferðalaginu. Sé þó ekki mikið af Gönu þar sem ég sit ábyggilega bara út í vél. Kem þangað bara einhvern tímann seinna.
Jæja, búinn að gera stans á Kenneth Kaunda flugvellinum í Sambíu. Þar fóru flestir farþegarnir út, en nýir komu í staðinn. Mér hlýnaði aðeins um hjartaræturnar þegar vélin var að taxa að flugvallarbyggingunni. Ég sá nefnilega namibíska áætlunarflugvél þar fyrir utan. Já, ég skaut víst svolitlum rótum í Namibíu. Ég get ekki afneitað því.
En núna ætla ég rétt að vona að bráðum komi matur því ég er glorsoltinn.
Þá er ég kominn til Næróbí og sestur inn á hótel ekki of langt frá flugvellinum. Hef séð of lítið af staðnum til að mynda mér einhverja heildarskoðun. Get þó sagt að umferðin hér er ekki fyrir hjartveika. Sat í bíl áðan á miðjuakrein af þremur. Annar bíll skellti sér fram fyrir okkur, fullnálægt að mati bílstjórans míns. Hann skellti sér því yfir á akreinina lengst til hægri, fór framúr og skellti sér svo fram fyrir hinn. Þarna var 50 km hámarkshraði, en mínir menn voru farnir að nálgast 90. Það sem ég komst síðan að augnabliki síðar var að það var komin fjórða akreinin vinstra megin. Frárein fyrir þá sem þurfa að beygja til vinstri. (munið, vinstri umferð í Keníu).
Við þurftum að beygja til vinstri...
Þ.a. þegar við þurfum að beygja til vinstri, þá skellum við okkur fyrst til hægri, gefum í til að komast framúr, og skellum okkur síðan eldsnöggt þrjár akreinar til vinstri - svínuðum þar með fyrir sökudólginn og líklega einhverja aðra í leiðinni - tókum svo krappa beygju inn á hliðargötu og framúr tveimur ministrætóum sem voru á einu akreininni sem þarna var og bílar á móti.
Þetta reddaðist.
Ferðalagið gengur sem sagt vel það sem af er.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli