Ferðalagið gekk vel. En flugstöðin í Líberíu var svolítið ævintýri. Reyndar það fyrsta sem ég tók eftir þegar við lentum voru græjur frá Sameinuðu þjóðunum. Ein stór farþegaflugvél og svo hvorki meira né minna en ellefu þyrlur. Svona stórar herþyrlur, sumar til mannflutninga og aðrar til vöruflutninga. Ég man bara ekki eftir að hafa séð svona margar þyrlur samankomnar á einum stað, hvort sem þær væru frá S.þ. eða einhverjum öðrum. En S.þ. eru stórt batterí í Líberíu. Bílstjórinn minn benti mér á höfuðstöðvar þeirra. Margra hæða risabygging.
Hver skyldi hafa kostað byggingu hennar?
Nei, ekki Kínverjar...
Enginn annar en hann Gaddafi sjálfur! Fyrrum Líbíuforseti. Þeir hafa varla hátt um það í dag forsvarsmenn S.þ. hér. Enda glotti bílstjórinn þegar hann sagði mér þetta.
En, aftur að flugstöðinni.
Á mér skall hitamolla þegar ég kom út úr vélinni. Tæplega 30 gráður og mikill raki, en honum er ég óvanur. Við farþegarnir fórum svo í rútu þá 50 metra sem voru að komusalnum. Þá kom smábabb í bátinn. Það var nefnilega nýlent breiðþota frá bandaríska Delta flugfélaginu og röðin þeirra í innflytjendaeftirlitið náði út úr byggingunni. Því mátti ekki hleypa okkur út úr rútunni og þurftum við að hanga inni í henni í ríflega korter. Svo fengum við að fara út og þá náði okkar röð út úr byggingunni. Svo sniglaðist maður áfram, en loksins kom röðin að mér. Ekkert vandamál, enda með alla pappíra í lagi.
Síðan gekk ég inn í næsta sal. Það var töskufæribandið. Smáfæriband. Eitt talsins. Í Namibíu eru þau þó tvö. Þarna var þvílíkur handagangur í öskjunni að ég hef varla séð annað eins. Hróp og köll. Einhverjir starfsmenn voru að reyna að hafa stjórn á hlutunum en það gekk ekki vel. Svo ef einhver náði töskunni sinni, þá var tekið stórt skref afturábak og svo stökk til að koma töskunni af. Þar með var hentust þrjár raðir af fólki, sem var að troðast, afturábak og einhverjar tær örugglega mörðust. Sumir skelltu ferðatöskunum upp á höfuð sér og fikruðu sig þannig í gegnum mannþröngina.
Svona leit kaosið út. Töskur flæddu um gólfin og töluverður æsingur. |
Taska á höfði. Takið eftir áletruninni til hægri: Velkomin til Líberíu! |
Svo í gegnum tollinn og þá kominn út. Mættur til Líberíu.
Meira síðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli