13. febrúar 2012

Menntun í Afríku

Í flugvélinni frá Lúsöku til Næróbí fyrir nokkrum dögum var sessunautur minn kenísk kona. Kona á framabraut mætti líklega kalla hana. Hún lét sig engu skipta öll mín litlu skilaboð um að fá að vera í friði. Ruddist yfir minn ipod og heyrnartól þangað til ég sá að mér, tók heyrnartækin úr eyrunum og slökkti á tónlistinni. Þetta var hin skemmtilegasta kona og ræddum við allskonar hluti á leiðinni. Kom í ljós að hún hefur alla tíð verið mjög flughrædd, en flýgur oft vegna vinnunnar, og er því skipulega að reyna að yfirvinna hræðsluna. Eitt skref í því er að spjalla við sessunautana. Í þetta sinn var það ég.

Eitt umræðuefni voru börnin okkar, sér í lagi menntun þeirra. Ég hef kynnst mörgun Afríkubúum í hennar sporum. Einhvers staðar á milli þrítugs og fertugs, með góða menntun, iðulega meistara- eða doktorsgráðu, og oftar en ekki í ágætis starfi hjá hinu opinbera í heimalandinu. Millistjórnendur af einhverju tagi. Væru skilgreind í millistétt í vestrænum löndum. Að mörgu leyti eins og hinn dæmigerði Íslendingur, hafa það gott en þurfa að hafa fyrir því.

Eitt á þetta afríska millistéttarfólk yfirleitt alltaf sameiginlegt. Að vilja ekki senda börnin sín í almenna skólakerfið í sínu landi, heldur leggur góðan hluta af sínum tekjum í skólagjöld í einkaskólum. Þetta ræddum við. Almennir skólar eiga við mörg vandamál að etja. T.d. eru kennarar oft illa menntaðir. Svo samanstendur hver bekkur af 60 til 180 börnum. Ímyndið ykkur að hafa stjórn á 120 átta ára krökkum í skólastofu sem kannski er hönnuð fyrir 40 til 50. Er hægt að fylgjast með árangri einstaks nemenda? Auðvitað ekki. Það segir sig sjálft. Svo eru skólagögn af skornum skammti. Einfaldir hlutir eins og blýantar og stílabækur eru oft ekki til staðar nema í mjög takmörkuðum mæli. Ekki að tala um kennslubækur.

Ég veit af eigin reynslu að þetta eru engar ýkjur. Ég hef komið í fjölda skóla í Namibíu, Malaví, Úgöndu og Mósambík, og sagan er alls staðar sú sama. Almennu skólarnir eru langt frá því að vera í standi til að veita skikkanlega menntun. Á meðan þetta er svona þá er nær ómögulegt að rífa þessi lönd upp úr fátækt. Skelfilegt en satt. Ég get í raun ekki nefnt eitt einasta Afríkuland sunnan Sahara sem ástandið er ekki svona. Þekki ekki til í Arabaríkjunum í norður-Afríku til að geta dæmt um ástandið þar.
Því greiða þeir foreldrar sem tök hafa á 30-40% af ráðstöfunartekjunum í skólagjöld og önnur tengd útgjöld. Þannig fjölgar sem betur fer menntuðu fólki.

En framgangurinn er hægur.

Alltof hægur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...