19. júlí 2010

Ferðalangar

Þá erum við Rúnar Atli í Tsumeb, góða 400 km fyrir norðan Windhoek. Við erum í góðu yfirlæti á nýjum gististað í útjaðri bæjarins, Kupferquelle nefnist hann. Einhver flottasti gististaður sem ég hef lent á hér í Namibíu. Hérna er m.a.s. sex brauta 50 metra löng sundlaug. Reyndar alltof köld á þessum árstíma, en ábyggilega flott að fara í hana í desember þegar heitast er.

Ég er að fara á morgun að heimsækja leikskóla sem verið er að byggja á svæðum Sana, en eitthvað gengur erfiðlega að klára bygginguna. Því fer ég til að komast að því hvaða vandamál valda þessu. Hér lendir maður stundum í því að enginn vill segja manni beint hvert vandamálið er, þ.a. maður verður að mæta sjálfur á svæðið. Ekki að það sé leiðinlegt, því miklu skemmtilegra er að fara í vettvangsskoðanir heldur en að sitja við skrifborðið í Windhoek.

Síðan datt mér í hug að ekki væri úr vegi að fá Rúnar Atla með í för. Hann er jú miklu meiri sérfræðingur í leikskólum heldur en ég...

Við lögðum af stað frá Windhoek rétt fyrir tvö leytið og renndum í hlað hér rétt rúmlega sex. Rétt eftir myrkur. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig. Rúnar Atli er einstaklega góður og rólegur í bíl. Hann horfir á bíómyndir ef sá gállinn er á honum, en ef ekki, þá dundar hann sér með eitthvað dót. Alveg með ólíkindum hvað hann nennir að sitja.

Í Otjiwarongo kíktum við á kaffihús, Bäckerei O. Carstensen, heitir það. Er eitt af þessum frábæru þýsku bakaríum sem maður rekst á sumsstaðar í sveitum Namibíu. Þarna úir og grúir allt í fínum þýskum marsípankökum og alls konar gúmmelaði sem ég kann ekki að nefna. Síðan, fyrir heilbrigða fólkið, er heilmikið af hollum brauðum, s.s. þriggjakornabrauð, bóndabrauð, mjólkurbrauð og ég veit ekki hvað og hvað. Áreiðanlega á annan tug brauðtegunda. Ekki má gleyma þessum flottu frönsku vöfflum, sem nefnast skósólar á þýskunni. Annar af tveimur stöðum í landinu sem ég veit til þess að það fínerí fæst.

Er eins og að hverfa aftur um fjóra áratugi eða svo að koma þarna inn. Mér er sagt af traustum heimildamanni að innréttingum hafi ekki verið breytt frá því bakaríið var stofnað. Svo er ótrúlega gamaldags að horfa á eigandann standa bakvið búðarborðið reykjandi sígarettu.

En, bakkelsið er gott, því er ekki hægt að neita.

Annars erum við Rúnar Atli að spá í að skreppa í túristaleiðangur á leiðinni heim á morgun. Taka á okkur smávegis krók og kíkja á steingerð risaeðluspor. Við höfum aldrei skoðað þau, sem er nú eiginlega skömm frá að segja. Ef þetta er flott þá koma myndir seinna.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...