27. júlí 2007

Land lagt undir fót

Á þriðjudaginn var lögðum við af stað í svolítið ferðalag suður á bóginn. Ég þurfti að fara til Lüderitz á fund og ákvað svona einu sinni að taka fjölskylduna með. Ja, þó ekki hana Tinnu Rut, því prófin eru að byrja hjá henni. Auk fjölskyldunnar var nýi starfsneminn, hún Arndís með í för.

Fyrsta daginn lá leiðin til Keetmanshoop, en þangað eru um 500 kílómetrar. Lítið markvert gerðist á leiðinni, þar til um 50 km voru eftir. Þá ákvað bílstjórinn að víkja úr alfaraleið og taka smáaukahring. Þetta var ekki í eina skiptið í ferðalaginu sem bílstjórinn tók þessháttar ákvörðun, og voru þær misvel heppnaðar.

En í þetta sinn var heppnin með. Við ókum fáfarinn veg þar sem fólk býr í hreysum algerum. Ekki skilur maður alveg hvað fólk hefur sér til lífsviðurværis á svona stöðum, en það er líklega ekki margt. Undir lok aukahringsins, þá komum við að hinum svonefnda leikvelli tröllanna. Þar ber ekki á öðru en tröll hafi farið í lególeik með risavaxna steinhnullunga. Auðvitað er einhver þurr skýring jarðfræðinga til á þessu fyrirbæri, en skemmtilegra er að hugsa sér tröll í legó.


Við kíktum síðan á fæðustund nokkurra blettatígra sem búa á sveitabæ einum í grennd vð tröllaleikvanginn. Mátti klappa sumum blettatígrunum, sem aðeins dró úr ógnvænleika augnabliksins.


Við skráðum okkur þvínæst inn á gljúfrahótelið í Keetmanshoop, en Gulla mælir tvímælalaust með hótelinu. Rúnar Atli stakk sér síðan á barinn og sat þar í góðu yfirlæti. Og það þrátt fyrir 18 ára aldurtakmark á barinn.


Næsta morgun var dagurinn tekinn snemma og þeir 350 km sem eftir voru til Lüderitz tæklaðir. Fyrstu 60-70 km á þessari leið eru ægifagrir. Ekið er um fjalllendi og yfir Fiská, í hverri næststærsta gljúfur heims er að finna. Landslagið þarna er nokkuð fjölbreytilegt og því enginn asi á okkur. Við stöðvuðum auðvitað til að skoða villihestana sem búa þarna í eyðimörkinni. Eru þetta víst afkomendur þýskra herklára sem sleppt var í kringum fyrri heimstyrjöldina þegar fækkað var í þýskum hersveitum staðsettum í Namibíu. Minna hestarnir mig nokkuð á íslenska hestinn, en þó eitthvað stórvaxnari. En þarna lifa þessir hestar í eyðimörkinni og lifa á þeim örfáu stráum er þar finnast.

Til Lüderitz komum við um hádegisbilið.


Ekki var slegið slöku við, heldur ekið út á Diazarodda, en þar er minnisvarði um Diaz nokkurn er fyrstur Evrópubúa kom á þessar slóðir. Þarnar beljast brimið á strandklettum og oft má koma auga á seli á smáskeri þarna fyrir utan.


Að þessu loknu fór ég að vinna, en um kvöldið settist Rúnar Atli á barinn...

Næsta dag, eftir að skrá okkur út af hótelinu og kaupa helstu nauðsynjar kíktum við á draugaþorpið Kolmannskop. Þarna byggðist upp þorp við upphaf síðstu aldar. Var þetta vegna demantavinnslu og bjuggu þarna eitthvað yfir 1.000 Þjóðverjar á gullaldarárum þorpsins, frá 1908 til 1928. Þá fluttust flestir í burtu vegna þess að demantar fundust nokkru sunnar. Lagðist þorpið svo alveg í eyði 1956. Bjuggu menn þarna við ótrúlegar allsnægtir og var ekkert til sparað til að halda uppi háum lifistandard og menningarstigi. Konur gengu víst um í nýjustu Parísartískunni og menn púuðu vindla í vindlastofu samkomuhússins á meðan konurnar löptu kampavín í kvennastofunni. Þarna var tveggja brauta keiluhöll og eitthvað fullkomnasta sjúkrahús í allri Afríku. Var þarna víst fyrsta röntgentæki sem notað var í álfunni, en það var nú aðallega hugsaði til að hindra menn í að smygla demöntum út af svæðinu í iðrum sér.


Húsin eru flest farin að láta allmikið á sjá. Hér eru t.d. tvær myndir af húsi bæjarstjórans, önnur að utan en hin að innan. Má húsið muna sinn fífil fegri, en greinilegt engu að síður að engu hefur verið til sparað.


Hugviti Þjóðverjanna var greinilega engum takmörkunum háð. Þarna var stærðarinnar apparat sem útbjó ísklumpa og á hverjum degi fékk hver fjölskylda sinn klump. Var klumpurinn notaður í ískáp þeirra tíma, en auðvitað þurfti að halda hvítvíninu og kavíarnum köldum. Sést Gulla hér dást að einum af þessum galdragripum.


Að lokinni þessari mjög svo skemmtilegu heimsókn var ekið af stað áleiðis til baka. Eftir hádegisverð í smákrummaskuði er heitir Helmeringshausen fórum við að skoða Duwiseb kastalann, sem er einn af þessum undarlegu hugdettum Þjóðverja fyrr á árum.


Einum þeirra datt sem sagt í hug, fyrir um einni öld síðan að byggja kastala handa sér og amerískri eiginkonu sinni. Var ekkert til sparað, efniviður og iðnaðarmenn fluttir hálfa leið yfir hnöttinn, en því miður fengu þau lítið að njóta kastalans. Sá fyrri heimstyrjöldin til þess. Eftir stendur þessi furðulega bygging í landi þar sem flestir búa í strá- og leirkofum. Enn eru ýmsir af upprunalegu mununum varðveittir þarna eins og sjá má.


Í lok dagsins var ekki úr vegi að smella rembingskossi á kinn móður sinnar...


Við lukum síðan ökuferð dagins í Maltahöhe, smáplássi þar sem hótelherbergi beið. Auðvitað fór Rúnar Atli á barinn...

Í morgun, ákvað bílstjórinn að halda stystu leið til Windhoek. Stystu, samkvæmt korti og loftlínu. Fyrsti hluti leiðarnnar er milli 60 og 70 km skv. korti. Er skemmst frá að segja að fljótlega þrengdist vegurinn allnokkuð og varð þannig að stundum var erfitt að sjá hvar vegurinn lá og hvar ekki. Stundum kvíslaðist hann og þá varð hyggjuvitið að ráða hvort farið var til hægri eða vinstri. Endalausan fjölda hliða þurfti að opna, og síðan loka. Tíminn leið og þar sem hraðinn var milli 5 km/klst og 35 km/klst, var ekki farið mjög hratt yfir. Þótti sá mikli tími sem fór í þetta ekki mjög æskilegur og spurt hvort ökumaður væri villtur. Ekki vildi sá bekenna það, en laut þó svo lágt að spyrja tvisvar til vegar. „Jú, ert á réttri leið,“ var viðkvæðið í bæði skiptin. Þegar loksins síðan náðist til byggða, þá voru 70 km að baki samkvæmt kortinu, en hvorki meira né minna en fjóra og hálfan klukkutíma tók að ferðast þessa vegalengd!

Skyldi þetta vera met af einhverju tagi?

Voru því nokkuð slæptir ferðalangar sem renndu inn til Windhoek rúmlega fjögur í dag.

En þetta var skemmtilegt...

...svona eftir á.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...