24. mars 2008

Akstur á ferðalagi

Ekki er laust við að ýmislegt komi upp á þegar eknir eru nær 3.000 kílómetrar á nokkrum dögum. Ekkert alvarlegt gerðist, þótt reyndar hefði litlu mátt muna að Elli lenti aftan á okkur þegar hann kom fljúgandi yfir hæð nokkra. Hinumegin við hæðina hafði ég nefnilega snarhemlað því beljandi stórfljót var yfir veginn og fannst mér skynsamlegra að skella í fjórhjóladrifið áður en lagt væri af stað. Ella hafði hins vegar tekist að ná Nissan brakinu sínu á sæmilega ferð, aldrei þessu vant, og brá því nokkuð þegar hann kom yfir hæðina og sér mig vera að baksa eitthvað við framhjólin á bílnum. Hann ætlar að skella bílnum niður í annan gír, en þar sem hann var ekki alveg kominn á hreint með það að sitja hægra megin í bílnum fór hann að fálma í hurðinni sinni, því honum fannst að gírstöngin ætti að vera hægra megin við sig... En hann náði nú að sveigja framhjá og stöðva bílinn með látum.

Haft er fyrir satt að hann Ari hafi sagt eitt orð á meðan þessu stóð... : „Shittt!“

Ekki veit ég hverslags uppeldi er á þessum dreng að kenna honum ekki að nota kjarnyrt íslensk blótsyrði við svona aðstæður.

En allt fór þetta nú vel.

Hér sést Elli vera að skríða yfir eina á. Þarna situr einn bíll fastur, en fjórhjóladrifið dugði okkur í allar þær torfærur sem við lentum í. Ekki hef ég tölu á þeim ám sem við þurftum að fara yfir á þennan hátt. Þær voru margar. En krakkarnir skemmtu sér þeim mun betur sem meira vatn sullaðist upp á glugga.


Ekki er fjarri lagi að við Elli höfum skemmt okkur ágætlega líka þegar vatnið sullaðist.

Um tíma voru konur í öðrum bílnum og karlmenn í hinum. Gulla og Allý voru nokkuð góðar með sig, eins og sjá má. Ætluðu að vera búnar að snúa sér nokkrum sinnum í sólbaði áður en karlpeningurinn mætti í Etosha.


Okkur hinum leist nú ekki alveg á blikuna, því sama hvað reynt var að koma Nissan brakinu áfram þá var þessi sýn alltaf fyrir augunun: afturendi á Toyota pallbíl út við sjóndeildarhringinn.


Góð ráð voru dýr. Okkur leist þannig á að eitt áhlaup mætti gera rétt áður en til Etosha kæmi. Ein tilraun og aðeins ein. Svona svipað og þegar ljón eru á veiðum, koma bráðinni á óvart.

U.þ.b. 5 km fyrir utan Etosha, þá setti Elli aftansönginn í gang (þetta orð aftansöngur kemur frá Allý, og ætla ég ekkert að útskýra það frekar). Síðan notuðum við Elli aðferð Stuðmanna úr Með allt á hreinu og fórum að róa í gráðið. Taktfast.

Og viti menn. Smátt og smátt fór Nissaninn að auka hraðann og bilið milli bílanna minnkaði jafnt og þétt. Náðist síðan að rúlla fram úr rétt við hliðið að Etosha og þar með sat kvenfólkið eftir með sárt ennið.

Börnin voru nokkuð góð á meðan á öllum akstrinum stóð. Þó kom fyrir að eitthvað heyrðist og þá var bara farið að ráðum Namibíumanna og öllum óþekktargemlingum hent í skottið. Hér sést þegar þeim er hleypt út, skömmustulegum, í Etosha.


Dýr eru nokkuð fyrirferðarmikil á vegunum í norðanverðri Namibíu. Nautgripir eiga það til að vera á þjóðveginum og þykir undarlegt að við mannfólkið seum að æsa okkur eitthvað yfir því.


Svo eru það geiturnar...


...og svo fleiri nautgripir.


En heim komumst við heilu og höldnu að lokum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mönnum hefur nú líkað að sjá í aftur endan á þessum elskum!!!

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...