9. mars 2008

Ævintýri á vettvangsför

Alla síðustu viku var ég á ferðalagi í norðurhluta Namibíu. Var að koma til mín nýr starfsmaður og einnig var hér starfsfélagi frá aðalskrifstofu. Því var farið í vettvangsferð til að sýna verkefni okkar hér og skoða möguleg framtíðarverkefni.

Reyndar styttist ferðin um tvær nætur því á einn stað komust við ekki. Hafa verið svo gríðarlegar rigningar sem og flóð frá Angólu að ár eru stútfullar af vatni og vel betur. Einn Namibíumaður sem vinnur með okkur var búinn að bíða í þrjá daga við á eina sem hann þurfti að komast yfir. Var loksins lagt í ána, en þá vildi ekki betur til en að straumurinn hreif bílinn með sér. Stöðvaðist hann loksins á tréi og náðu ferðalangarnir með snarræði að binda bílinn við tréð þar til hjálp barst. Leist mér ekki alveg á að hætta mér úti í svona ævintýramennsku og því héldum við heim á leið fyrr en áætlað.

Lentum þó í okkar eigin ævintýri. Það tók reyndar bara þrjár klukkutíma, ekki þrjá daga. Við vorum að skoða nokkra leikskóla í Omusatisýslu, og þurftum að víkja af alfaraleið. Ekki vill betur til en að leiðsögumaðurinn festir bílinn sinn. Ætla ég því að kippa í hann, en þegar ég er að koma mínum bíl í rétta stöðu þá finn ég allt í einu að bíllinn tekur að síga! Já, hann sökk bara niður og lagðist á „magann“ og hreyfðist ekki hvorki fram né til baka.

Þarna var landið orðið gegnsósa af vatni og ef ég stappaði niður fæti þá kom vatn upp. Í raun vorum við í hálfgerðu feni þarna, en ekkert sást fyrr en bíllinn var sokkinn.

Nú voru góð ráð dýr. Smátt og smátt kom fólk þarna að og fór að hjálpa okkur. Ekki gekk nú vel til að byrja með, enda var bíllinn þungur og djúpt sokkinn. Sem betur fer var ég ágætlega búinn tækjum. Var t.d. með stærðarinnar tjakk sem gerður er fyrir nákvæmlega svona aðstæður. Verst var þó að bíllin sem ég var á er úr ótrúlega miklu plastdrasli og því erfitt að finna stað fyrir tjakkinn. En hér er þó búið að tjakka kaggann upp að aftan og farið að hlaða greinum undir dekkin.


Í upphafi voru einkum karlmenn sem voru að aðstoða, en eftir því sem á leið bættust konur í hópinn. Þær höfðu sig lítið í frammi til að byrja með, stóðu hjá og fylgdust með.


En smátt og smátt færðu þær sig upp á skaftið. Þótti greinilega ekki að aðferðir karlanna væru að skila neinu. Hér sjáið þið hóp fólks sem var að gera sig tilbúið til átaka og ófáar konur eru þar á meðal.


Síðan var ýtt og ýtt og svo tjakkað og tjakkað og málin rædd og rædd enn frekar. Alltaf bættist í hópinn og reiknast mér að á fjórða tug manna hafi verið kominn í málið áður en yfir lauk. Eins og sést gjörla lágu konurnar ekki á sínu liði við ýtingarnar.


Bíllinn náðist að lokum upp og má segja að fólkið hafi hreinlega borið hann úr feninu. Svo var bara gefið í til að ná á fast.

En mikill samtakamáttur var í fólkinu og var virkilega gaman að sjá hvernig allir lögðust á eitt að hjálpa bláókunnugu fólki.

Mikið var hlegið á meðan á þessu stóð og efast ég ekki um að ýmsar glósur hafi fokið til mín án þess að ég skildi. En kannski átti ég þær alveg skilið. Hver veit.

En lífsgleði er hér allstaðar og enda ég á einni mynd sem sýnir kátt fólk rétt utan við Opuwo í norðvesturhluta landsins.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...