27. júní 2006

Ferðalagið - önnur frásögn

Svo hófst vinnan. Fundur sem átti að vera klukkan níu frestaðist fram
yfir hádegi, en í staðinn var farið með okkur í sýnistúr um bæinn. Við
byrjuðum á því að rekast á þorpshöfðingann úr þorpinu sem við erum að
vinna í, Etanga heitir það, svo við hann var spjallað. Alltaf undarlegt
að tala við fólk þegar þarf túlk. Ég á alltaf í erfiðleikum með að nota
aðra persónu í svoleiðis samtali, því ég hef á tilfinningunni að ég sé
að tala við túlkinn og nota því þriðju persónu um viðmælandann. Sama
hvað ég einbeiti mér að því að breyta þessu þá gengur það mjög illa.

Hvað um það, síðan hittum við nokkrar konur frá Etanga. Þær klæðast á
hefðbundinn Himba hátt, og búnar að smyrja á sig kreminu rauða. Þessar
konur voru að koma með lasið barn á spítalann og höfðu búið um sig í
kofaskrifli á lóð sem þorpshöfðinginn á. Kofinn samanstóð af
trjágreinum og ullarteppum. Þarna voru þær búnar að búa í einhvern tíma
og sáu fram á að vera í viku til tvær til viðbótar. Þær báðu túlkinn
okkar fyrir alla muni að biðja fjölskylduna sína í Etanga að senda sér
eina geit með næstu bæjarferð. Geitina er nefnilega hægt að selja og
kaupa síðan mat og aðrar nauðsynjar. Fyrir góða geit fást um 300
Namibíudalir, u.þ.b. 3.300 krónur.

Síðan fórum við aðeins útfyrir Opuwo og gengum á fjöll. Ja, aðeins upp
í hlíðarnar. Þar hittum við fólk sem var langt að, býr í 2-300 km
fjarlægð frá bænum. Þeirra ættbálkur er flinkur í að búa til skartgripi
og koma þeir því alla leið að heiman, búa til skartgripi úr járnarusli
og selja. Síðan þegar hagnaðurinn er orðinn nægur, þá er verslaður
matur fyrir hann og síðan farið heim með matinn.

Síðan hittum við það sem hér kallast „hefðbundinn læknir,“ gætum kallað
grasalækni, eða jafnvel skottulækni. Þessi hafði öðlast sínar
læknagáfur þegar frændi hans, sem verið hafði læknir, lést. Eftir það
varð þessi maður læknir. Hann var nú ekki mjög gamall, kannski rúmlega
þrítugur og hálfu höfði hærri en ég. Athygli mína vakti að undir
hefðbundnum himbaklæðunum var hann í Inter Milan treyju. Hann varð nú
hálffúll út í mig þegar ég færði honum ekki neitt að gjöf. En svo er nú
það.

Næsta dag, miðvikudag, var svo lagt af stað til Etanga. Það var nú
meira ferðalagið. Vegalengdin var eitthvað rúmir 100 km, en þvílíkan
tíma sem ferðalagið tók. Vegirnir voru, ja, ég veit ekki alveg hvernig
ég á að lýsa þeim, nema kannski að á stórum köflum voru þetta eiginlega
ekki vegir. Mikið af grjóti og holum og sums staðar vantaði bara í
veginn. Iðulega vorum við að drattast þetta á 30-40 km hraða og fannst
stundum að fullhratt væri ekið. Sem betur fer er Hiluxinn góður í svona
hluti.



Við skoðuðum fjóra færanlega leikskóla, þ.e.a.s. 25 fermetra tjöld sem
eru notuð fyrir leikskóla. Himbarnir eru hirðingjar og færa sig því oft
úr stað. Þá þarf leikskólinn að færast líka. Rúnari Atla leist ekki
alveg á þessa hluti í byrjun, en svo þegar hann sá leikföng, þá hægt og
rólega færði hann sig upp á skaftið. Var frábært að sjá glókollinn hann
umkringdan 20-30 hörundsdökkum börnum.



En ekki væri þetta líf mikið fyrir okkur. Við einn leikskólann kom
kvennasendinefnd sem bað um aðstoð við borun eftir vatni. Þær þurfa
nefnilega á hverjum degi að arka langar leiðir og fylla 25 lítra brúsa
af vatni og koma honum aftur til baka í húsið sitt. Langar þeim í
vatnsbrunn með dælu og vatnsleiðslu inn í þorpið. Munið þetta næst
þegar þið burstið tennurnar eða farið í sturtu.

Síðan lentum við í sjúkraflutningum. Vorum við spurð hvort við gætum
keyrt ungabarn og móður þess til Etanga, en þar er heilsugæslustöð. Jú,
jú, ekki var það neitt vandamál. Farið var að búa um hana aftur á
pallinum á bílnum og áður en ég vissi af voru fimm manneskjur komar um
borð, innan um allt okkar hafurtask. Síðan var þjösnast yfir holt og
hæðir, steina og holur, með þetta fólk innanborðs. Voru þau ósköp ánægð
yfir því hversu ferðin tók stuttan tíma. Þarna er lítið um bílaferðir,
oft líða dagar án þess að bíll keyri um þessa vegi. Engir símar eru
þarna og bara mest lítið samband við umheiminn.

Til baka komumst við á gistiheimilið um kvöldmatarleytið og vorum við
alveg búin eftir ferðalagið. Held ég við höfum öll verið steinsofnuð
fljótlega upp úr átta um kvöldið.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...