26. júní 2006

Ferðalagið - fyrsta frásögn

Við lögðum af stað nokkuð eftir hádegi á sunnudegi fyrir viku. Tinna
Rut kom ekki með, bæði vegna skóla og eins hafði hún takmarkaðan áhuga,
svo ekki sé sterkar kveðið að orði. Flora tók að sér að vera í húsinu á
meðan, þ.a. Tinna yrði nú ekki alein. Fyrsta daginn ókum við u.þ.b. 350
km. Lítið markvert gerðist á leiðinni, við kíktum þó í eina heimsókn á
stað sem heitir Otjiwarongo, og um kvöldmatarleytið komum við á fyrsta
næturstað, Ombinda heitir gististaðurinn, rétt utan við bæ sem ber
nafnið Oujto. Þar var flott þjónusta, heljarinnar matseðill, og vorum
við hrifin af þessu stað. Flott villibráðarsteik og fleira nammigott.

Að loknum morgunverði næsta dag, var síðan haldið af stað á ný. Ókum
við svipaða vegalengd og deginum áður, en nú var meirihluti leiðarinnar
malarvegur. Síðan var um 50 km. kafli sem miklar framkvæmdir eru í
gangi, sennilega á að leggja bundið slitlag fljótlega, og gekk ferðin
frekar hægt. Við komum að lokum til áfangastaðar, Opuwo, um miðjan
eftirmiðdag. Opuwo er sérkennilegur staður. Svipað og á Íslandi virðist
alltaf vera rok þarna og þar sem flestar götur eru ekki malbikaðar, þá
þyrlast oft upp sandurinn og berst yfir allt. En þarna úir og grúir af
fólki, allskonar fólki. Opuwo er þjónustumiðstöð nærliggjandi sveita og
því er mikill erill og fólk kemur hvaðanæva að. Þarna rekst maður á
fólk í jakkafötum, fínpressuðum. Reyndar er lítið af þess háttar
fuglum. Og síðan fólk í hefðbundnum himbaklæðum, og svo bara er öll
flóran þar á milli. Þessi fjölbreytileiki í útliti fólks gerir Opuwo
mjög sérstakan bæ fyrir utanaðkomandi. En í augum heimafólks er ekkert
undarlegt við þetta. Á þessu svæði Namibíu býr fátt af hvítu fólki.
Rúnar Atli vakti því nokkra eftirtekt og sýndist manni að margir, sér í
lagi krakkarnir, hefðu varla nokkurn tímann séð barn af okkar
litarhætti, og einnig virtist ljós háralitur hans vekja eftirtekt. Ekki
dró úr athyglinni, að drengurinn var nokkuð pirraður þegar við fórum í
matvörubúð og tók smáraddbandaæfingu, foreldrunum til mikillar ánægju.
Var guttinn orðinn það reiður, að hársvörðurinn varð rauður... stuð.
Þetta jafnaði sig nú síðan allt að lokum.

Meira síðar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær saga. Bíð spennt eftir framhaldinu :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...