10. júní 2006

Kúkur á klaka...

Æ, ekki leið mér nú vel í gær. Kom heim í hádeginu og þá var Rúnar Atli
eitthvað svo undarlegur. Ég fór að fylgjast betur með honum og sá þá að
hann hlífði alveg hægri hendinni, hreyfði hana bara ekki neitt. Þarna
var hann nývaknaður, svo mér datt nú í hug að hann hefði legið illa, en
þetta lagaðist ekki og hvein í honum ef eitthvað var komið við
handlegginn.

Ég ákvað að bíða ekkert, enda föstudagseftirmiðdagur, og fór beint til
læknis með drenginn. Heimilislækninum fannst þetta allt mjög undarlegt
og sendi mig til barnalæknis. Ég ætti kannski að nefna að fyrir svona
tíu dögum stakk mænusótt sér niður hér í fátækrahverfi borgarinnar. Eru
tíu ár síðan síðasta tilfelli fannst. Tókst nú ekki að greina hana fyrr
en á miðvikudaginn var og eru allir mjög taugaveiklaðir vegna þessa.
Eitt einkennið er lömun útlima og því þótti nú réttara að skoða þetta
betur. Barnalæknirinn skoðaði Rúnar Atla frá toppi til táar, en fannst
ekkert benda til mænusóttar, því engin önnur einkenni er drengurinn
með. Hann er líka bólusettur upp í topp fyrir þessari óáran svo ekki á
hann að geta fengið þetta næstu tíu árin eða svo.

Drengurinn er ekki með neina áverka, en auðvitað detta manni ýmsir
möguleikar í hug þegar svona gerist, sumir verri en aðrir. Við fórum
svo aftur til læknisins í morgun, en hann er á vakt á slysavarðsstofu
hér á besta spítalanum í bænum. Þar var í morgun ekki þverfótað fyrir
foreldrum með lítil börn sín. Allir með miklar áhyggjur vegna
mænusóttarinnar. Rúnar Atli hafði ekki tekið neinum breytingum frá í
gær, svo læknirinn bað mig að koma með saursýni frá drengnum, tvö með
a.m.k. 24 tíma millibili. Þau eru notuð til að prófa fyrir
mænusóttinni. Mikil áhersla var lögð á að kæla sýnin niður og koma með
þau vel kæld. Því fyrirsögn þessarar dagbókarfærslu. Þetta var mjög
athyglisvert að nota hálfa klemmu til að skammta úr bleyjunni ofan í
glasið sem ég fékk. Síðan að ganga frá þessu tryggilega innan um ísmola
og koma þessu á slysadeildina. Skemmtilegt.

En segjast verður að Rúnar Atli er þrælhress. Þetta virðist ekkert fara
í skapið á honum. Stundum gleymir hann sér reyndar og þá finnur hann
til. En þó virðist hann nú aðeins vera farinn að nota hendina til að
styðja við hluti, svo ég vona nú það besta. Mér virðist þetta líkjast
einna helst tognun. Þetta er nú heldur öfgakennd leið til að gera
drenginn örvhentan.

Við eigum að mæta í fyrramálið á nýjan leik og síðan verða sjálfsagt
teknar röntgenmyndir á mánudag ef allt er óbreytt. Sú deildin er lokuð
um helgar nema í neyðartilvikum og þetta telst nú ekki alveg svoleiðis.
Sem betur fer.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...