4. nóvember 2006

Fílaminni

Oft er sagt að fílar gleymi aldrei. Ég veit ekki hvort sú sé raunin
með Rúnar Atla, en minnugur er hann.

Þannig var að í dag sátum við á veitingastað í Swakopmund. Tinna Rut
og vinkonur hennar voru á trémarkaðnum, en við Rúnar Atli ákváðum að
fá okkur eitthvað í gogginn, enda farið að draga að hádegi. Nema
hvað, allt í einu vindur sér að mér maður og spyr hvort þetta sé ekki
herra Wiium. Ég jánka því auðvitað. Kannast við andlit mannsins
einhvers staðar frá, en kem honum ekki fyrir mig alveg strax. Hann
spyr síðan hvort sé ekki í lagi með handlegg sonar míns. Þá kviknar
allt í einu á perunni hjá mér. Þarna var læknirinn kominn sem kippti
Rúnari Atla aftur í olnbogaliðinn í júní.

Við ræddum nokkur kurteisisorð, eins og gengur. Sé ég þá allt í einu
að skeifa er farinn að myndast á Rúnari Atla og neðri vörin farin að
skjálfa. Fer hann síðan allt í einu að hágráta. Var greinilegt að
líka hafði kviknað á perunni hjá honum. Leist honum greinilega ekki á
blikuna, hefur líklega haldið að læknisskoðun myndi fara fram þarna á
veitingastaðnum. Tók góða stund að ná drengnum niður og tókst ekki
fyrr en læknirinn var horfinn á braut.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...