Hérna er stödd í borginni íslensk kona sem er að vinna að táknmálsverkefni sem stutt er af vinnunni minni. Þær eru reyndar tvær konur staddar hér í þessum tilgangi, en þessi fyrrnefnda berst við hveitióþol eða eitthvað þess háttar. Útaf henni er þessi dagbókarfærsla. Einhvern tímann í fyrri heimsókn ætlaði ég að bjóða henni upp á vöfflur, en komst þá að þessu með hveitivandamálið. Hún fékk sem sagt ekki vöfflur hjá mér þá.
Núna þótti mér tilvalið að reyna að bæta um betur og bjóða upp á vöfflur sem hún gæti notið með okkur hinum. Er henni boðið í vöffluveislu á morgun, ásamt ýmsum öðrum.
Í gær fór ég því á stúfana til að komast að því hvernig maður ber sig eiginlega að við að útbúa svona vöfflur. Fyrst var auðvitað gúgglað. Þá kemur upp þetta sígilda gúgúl-vandamál, nefnilega alltof mikið af upplýsingum. Blaðsíða eftir blaðsíðu af uppskrifum. Glúteinlausar vöfflur í massavís.
Eftir að plægja mig í gegnum einhverjar síður var ég kominn með innkaupalista. Þá var farið í Súper-Spar, en það er snobb-matvörubúðin hér í borginni. Þar er nefnilega heilsuhorn, allskonar heilsuvörur sem ég veit ekkert til hvers eru. Venjulega þegar ég álpast út í heilsuhornið þá er ég án markmiðs og horfi bara ráðvilltur í kringum mig.
Ekki núna.
Núna var ég með heilsuhornsinnkaupalista.
Það sem mest kom á óvart var að allt sem ég þurfti var til þarna. Hvort sem um var að ræða heilsuvöru úr íslenskri, breskri eða bandarískri uppskrift; allt var til. Já, svona er lífið í henni Afríku, skal ég segja ykkur.
Svo áðan gerði ég baksturstilraun. Ekki þýðir að hafa ekki prófað áður en gestirnir koma.
Ég notaði glúteinlaust hveiti, sojamjólk, kókosfitu, vínsteinslyftiduft, agave-sýróp, egg og gusu af vanilludropum. Deigið var allt öðruvísi en ég er vanur. Miklu meiri teygja í því en í venjulegu vöffludeigi og rann það því ekki vel út á vöfflujárninu. En engu að síður litu vöfflurnar vel út.
Glúteinlausar vöfflur. Mér skilst að svona megi kalla glútán-vöfflur. Án glúteins, þ.e.a.s.
Stóri dómur í vöfflumálum er Rúnar Atli.
Hann tók einn bita.
„Nammi-nammi,“ var niðurstaða hans. Hámaði hann svo vöfflurnar í sig.
Meira að segja Gullu þóttu þær ágætar. Annað en með heilhveitivöfflurnar um daginn.
Mér fundust þessar vöfflur alveg þrælgóðar. Öðruvísi á bragðið en venjulegar vöfflur, en ekki verri.
Vöffluveisla morgundagsins lítur því vel út.
Nú er bara spurning hvað maður prófar næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
2 ummæli:
þú ert ekki ók :-)
Doddi
Skrifa ummæli