11. janúar 2017

Vatn eða ekki vatn

Þá er maður kominn úr jólafríinu. Mættur til vinnu og allt að hrökkva í gírinn. Skólinn byrjaði í gær hjá Rúnari Atla. Honum þótti það skemmtilegt. Gulla er þessa vikuna í afleysingakennslu í skólanum hans Rúnars. Sem sagt nóg að gera.

Svolítil voru viðbrigðin að koma úr vitleysisveðrinu á Fróni. Hér í Mapútó náðu selsíusgráðurnar upp í þrjátíu-og-eina í dag. Samt var skýjað fram eftir degi. Eitthvað rigndi á meðan við vorum í burtu, því tréin eru grænni og laufmeiri en fyrir rúmum mánuði. Svo eru miklu fleiri holur í malbikinu en þá.

Þrátt fyrir rigninguna er vatnsskortur í höfuðborginni og nágrenni. Uppistöðulónið sem sér okkur fyrir vatni er nefnilega að verða tómt. Mig minnir að hafa séð einhvers staðar að vatnsmagnið sé 14% af því mesta mögulega. Svona hefur ekki sést frá því uppstöðulónið var fyrst tekið í notkun 1987. Meginorsök vandamálsins er að Úmbeluzi áin, sem skaffar lóninu vatnið, á upptök sín í Svasílandi, en þar hefur sáralítið rignt undanfarin tvö til þrjú ár.

Nýi tankurinn sem hlýtur að fylla
klósettkassa eða tvo
Nú er búið að tilkynna að vatn verði skammtað næstu vikurnar, þ.a. maður fær vatn annan hvern dag. Vatnsveitan birti tilkynningu um þetta í vikubyrjun og fylgdi með tafla með tveggja vikna skömmtunaráætlun. Í töflunni voru listuð hin ýmsu hverfi borgarinnar og annar hver dagur er hvítur og hinn dagurinn blár. Hins vegar var ekki sagt hvor liturinn þýddi að maður hefði vatn og hvor þýddi að maður hefði ekki vatn. Nú ríkir því svolítill spenningur um þetta.

Samkvæmt tilkynningunni hófst skömmtunin í gær, en þá höfðum við vatn. Í dag höfum við líka vatn, svo maður lifir enn í „litaóvissu.“ En ekki þýðir annað en að hafa vaðið fyrir neðan sig og því fjárfestum við í 210 lítra forðatanki. Maður verður nú að geta sturtað niður úr klósettinu...

Undanfarin ár höfum við nokkrum sinnum upplifað bæði vatns- og rafmagnsleysi. Verður að segjast að vatnsleysið er töluvert verra. Engin spurning. Að komast ekki í sturtu þegar maður vill er virkilega pirrandi. Að ekki sé talað um klósettmálin. Við vonum hins vegar að skipulag vatnsveitunnar haldi, því það er nú ólíkt betra að vita hvenær ekki er vatn, heldur en að vakna upp við vondan draum.

Svo vonum við auðvitað að fari að rigna í Svasílandi!

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...