Fyrir einhverju síðan keyptum við okkur gps-tæki fyrir bíl. Við höfum iðulega tekið bíla á leigu í Jóhannesarborg og fengið gps-tæki með. Þau hins vegar voru iðulega ekki góð, bæði illa uppfærð kort og bara léleg og gömul tæki. Því keyptum við okkur eitt og höfum ekki séð eftir því. Fyrir tæknisinnaða er þetta Garmin Drive tæki, týpa 60LM. Virkilega gott tæki sem við tökum með okkur í ferðalög á framandi slóðir.
Þegar við komum til Svíþjóðar á sunnudaginn var þá var tækið með í handfarangrinum. Um leið og lykillinn að bílaleigubílnum var kominn í okkar hendur þá var Garmin tækið fest innan á framrúðuna og þar með var allt tilbúið.
Sumir vita að Rúnari Atla þykja McDonald's hamborgarar hnossgæti og er einn af hápunktum hvers ferðalags að komast á svoleiðis eðalstað. Var búið að lofa drengnum að það fyrsta sem við myndum gera í Svíaríki væri að fara og kaupa hamborgara. Því sló ég inn „McDonald's“ í gps-inn og, viti menn, slatti af stöðum birtist á skjánum. Sá nálægasti í ríflega fjögurra kílómetra fjarlægð frá Arlanda flugvellinum.
Ég ýtti á „Go“ og við af stað. Gps-daman, þessi elska, fór að lóðsa mig um göturnar. Slæmt var þó að Gulla, Dagmar Ýr og Rúnar Atli voru komin í hrókasamræður, enda hafði Dagmar ekki hitt þau hin lengi. Drukknaði yndisfagra rödd gps-dömunar því stundum í hávaðanum. Ég, eins og aðrir karlmenn, á erfitt með að fylgjast með mörgu í einu og því fór það þannig að þegar um 800 metrar voru eftir á McDonald's staðinn að ég tók of krappa beygju. Í stað þess að renna ljúflega til hægri út af hraðbrautinni og upp á hæð og yfir, þá fór ég yfir á hægri beygjuakrein og var allt í einu kominn á aðra hraðbraut, sem lá þvert á þá fyrri.
Úpps!
Var ég svolítið gramur út í sjálfan mig fyrir þetta klúður en hugsaði nú að gps-daman myndi nú, eins og venjulega, redda mér einn, tveir og þrír út úr vandanum. Jú, jú, hún sagði mér að aka áfram og taka u-snúning ... eftir ... 14 kílómetra!
Æ, æ, þetta varð aðeins lengra ferðalag en til stóð. 800 metrar urðu í einu vetfangi að 28 kílómetrum...
En nú er ég búinn að redda þessu skal ég segja ykkur:
Máltækið segir jú að betur sjái augu en auga - sem ég yfirfæri þá að betur vísi veginn leiðsagnir en leiðsögn.
Eða hvað?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli