23. nóvember 2010

Skyldi jólaskapið koma brátt?

Nú eru jólaskreytingar komnar í nær allar búðir hér í Windhoek. Allskonar grenigreinar og jólaskraut lafir niður úr loftunum. Afgreiðslufólkið er komið með jólasveinahúfur. Meira að segja er vélrænn jólasveinn í einni matvörubúð hér í nágrenninu. Sá dillar sér í mjöðmum og syngur jólalög, börnum til mikillar ánægju. En fullorðna fólkinu finnst minna til koma, enda hálfgert dósahljóð í sveinka.

Síðan eru jólavörunar auðvitað komnar. Jólatré og allt sem því tilheyrir. 

Einn og einn húseigandi tekur líka þátt í leiknum. T.d. er einn nágranni okkar búinn að festa jólasveinabrúðu utan á skorsteininn sinn. Heldur sveinki dauðahaldi að því er virðist; kannski búinn að innbyrða of mikið af glöggi?

Jólalög heyrast þó ekki enn í útvarpinu. A.m.k. ekki á þeim stöðvum sem ég hlusta á. Ætli það byrji ekki uppúr mánaðarmótum, gæti trúað því.

Ég get nú ekki sagt að ég sé kominn í jólaskap. Alltaf er nefnilega sama vandamálið. Þrjátíu stiga hiti og þar yfir passar bara engan veginn við jólin. Sama hversu lengi maður býr á slóðum sem hásumar er í jólamánuðinum. Spenningurinn er þó aðeins að byrja hjá Rúnari Atla, enda ekki nema sex ára.

Vonandi kemst ég í gott jólaskap þegar ég lendi á Fróni, tæpri viku fyrir jól.

Já, ég er eiginlega alveg viss um það.

1 ummæli:

Tommi sagði...

Gleðileg jól ;)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...