19. maí 2010

Baráttan mikla um svefnherbergið

Í gærkvöldi fór ég snemma upp í rúm. Svona um níuleytið. Venjulegur háttatími í Namibíu er tíu til hálfellefu, því hér er dagurinn tekinn snemma. En ástæðan fyrir þessum asa mínum að komast í rúmið var að mér áskotnaðist að láni bók á íslensku, Skipafréttir eftir Annie Proulx. Alltaf er tilhlökkun þegar mér berast í hendur bækur á því ylhýra.

Svo um ellefuleytið heyri ég eitthvað hljóð. Átti erfitt með að átta mig á hvað þetta var. Klórhljóð sem barst að mér virtist frá náttborðinu mínu. Voðaflott náttborð með skúffu og skáp og ná hliðar alveg niður í gólf. Svo hætti hljóðið.

En, Adam var ekki lengi í paradís. Aftur hófst þetta klór. Datt mér einna helst í hug mús, en þótti það nú ótrúlegt. Ýtti þó borðinu alveg þétt upp að veggnum, ef vera skyldi að ég hefði rétt fyrir mér. Músin, ef þetta væri nú mús, væri þá lokuð undir borðinu. Svo mætti eiga við þetta í fyrramálið. Síðan fór svefninn að sækja á.

En, enn hófst klórið. Nú var eiginkonan búin að átta sig á því að eitthvað var ekki eins og átti að vera. Ég lagðist á hliðina, hreyfingarlaus, og fór að fylgjast haukfránum augum með gólfinu. Og viti menn. Sé ég ekki músarhöfuð gægjast fram við hliðina á náttborðinu. Skýst músin svo að poppskál sem stóð á gólfinu og er eitthvað að gera sig heimakomna við hana. Um leið og ég hreyfði mig, þaut hún til baka í öruggt skjól.

Æ, svona lagað er allt annað en skemmtilegt. Ekki síst í kringum miðnætti þegar svefninn er farinn að gera vart við sig. En að áeggjan Gullu lét ég mig hafa það að skrönglast framúr, fara í stuttbuxur og síðan í vopnaleit.

Kom ég til baka allvígalegur með fötu í annarri hendi og pappaspjald í hinni. Dró svo náttborðið frá veggnum - undir það var komin álitleg hrúga af poppi - og eftir smástund var músarræfillinn króaður af úti í horni. Skjálfandi á beinum, sú litla. Voðalega krúttleg mús, hefði ýmsum sjálfsagt fundist. En ég sýndi enga miskunn, enda músin komin í mitt konungsríki. Og það óboðin. Ég skellti fötunni á hvolf yfir hana, renndi pappaspjaldinu undir fötuna, sneri svo öllu klabbinu við, og var þar með búinn að ná yfirhöndinni í þessari baráttu.

Músin endaði í árfarvegi hinum megin við girðinguna okkar. Hún tók á sprett frá húsinu, frelsinu fegin.

Ég fór aftur í rúmið, adrenalínið alveg á fullu og ætlaði aldrei að sofna. En, huggaði mig þó við það að hafa unnið baráttuna miklu um svefnherbergið.

4 ummæli:

svanur sagði...

Þú leynir á þér í veiðimennskunni.

En samkvæmt vísindarlegum niðurstöðum í músarannsóknum mun músin skila sér í hús aftur.

Allavega ef hún væri íslensk.

Með kveðju úr sveitinni.

Gulla sagði...

Þetta er nú ekki alveg það sem ég vil heyra, þ.e. að músaskömmin gæti skilað sér aftur í hús.

Ég verð að segja að ég kýs maurana og kakkalakkana miklu fremur en mús :-)

jóhanna sagði...

*HROLLUR*

vennesla sagði...

gott Villi að þú verð þitt yfirráðarsvæði (ekki með kjafti og klóm, en með fötu og pappaspjaldi):)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...