20. maí 2011

Að sleikja gangstéttir

Í nokkra daga hefur staðið til að fara í klippingu. Í dag lét ég verða af því. Nálægt vinnunni er slæðingur af hárgreiðslustofum. Á þeirri sem ég fór síðast var hálftíma bið. Mér leist illa á það og rölti af stað að leita að annarri. Sá fljótlega eina sem auglýsti herra- og dömuklippingar. Fór þangað inn og spurði hvort hægt væri að fá klippingu.

Á móti mér tók ung stúlka, rúmlega tvítug giska ég á, með fjólublátt hár. Ekkert mál að fá klippingu og ég settist í stólinn.

Fjólublátt er ekki alveg minn litur þegar kemur að hári, en ég hughreysti mig við það að sá sem dundaði sér við að lita sitt eigið hár, þótt fjólublátt væri, og ynni þar að auki á hárgreiðslustofu, hefði líklega vit á klippingum og hárgreiðslu. Og sú varð raunin, ég var ósköp sáttur við útkomuna.

En, ég komst að því að ég og þessi stúlka töluðum ekki alveg eins íslensku.

Ekki að hún væri útlendingur, engan veginn. En, orðavalið og -notkunin var ekki alveg eins hjá okkur tveimur.

T.d. var helsta áhersluorð þessarar stúlku „ó-mæ-godd“.

„Mamma hennar hringdi, ó-mæ-godd, og afpantaði tímann en ó-mæ-godd gleymdi að segja henni, þ.a. hún mætti í morgun og ó-mæ-godd ég var ekki mætt því tíminn var ó-mæ-godd afpantaður. Svo var hringt í mig, ó-mæ-godd, og ég sem var á leið í ræktina, ó-mæ-godd, þurfti svo að bruna hingað og traffíkin, ó-mæ-godd, var brjáluð.“

O.s.frv.

Ég hefði líklega sjálfur, ó-mæ-godd, notað annað áhersluorð.

Eins og gengur á hárgreiðslustofum fórum við að tala um daginn og veginn. Einhvern veginn þróaðist umræðan út í ferðamáta í og úr vinnu. Hún var engan veginn sannfærð að hjólreiðar væru almennilegur samgöngumáti.

„Sko, kærastinn minn, hann myndi frekar sleikja gangstétt heldur en láta sjá sig á hjóli.“

Sleikja gangstétt?

Hvaðan í ósköpunum kemur svona samlíking?

Hverjir sleikja gangstéttir?

Var ég að upplifa hið margfræga kynslóðabil?

En ég mæti örugglega aftur á þessa hárgreiðslustofu - ó-mæ-godd bullið í mér, þetta var ekki hárgreiðslustofa heldur ó-mæ-godd rakarastofa með dömuívafi...  (hvað þýðir það?) - því spjallið var endurnærandi og skemmtilegt. 

Ó-mæ-godd já.

3 ummæli:

davíð sagði...

Þú hefur fengið eitthvað fyrir allan peninginn

jóhanna sagði...

ó mæ god...

Nafnlaus sagði...

Viðvorum nú örugglega ekki betri á sama aldri. Sögðum örugglega einkvað sem fullorðnum þótti skrítið :-)
Doddi

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...