4. maí 2011

Afríka eða Ísland? Hvar er ég eiginlega?

Að loknum vinnudegi áðan þá lagði ég hjólandi af stað heim á leið. Lá leið mín yfir Klambratúnið, en síðan fór ég út á Lönguhlíð og þar yfir Miklubraut. Í því sem gatnamót þessara tveggja birtust mér sjónum þá tók ég eftir því að tvær mótorhjólalöggur höfðu stöðvað Lönguhlíðarumferðina og veifuðu Miklubrautarbílum að drífa sig yfir.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að einhvers staðar hefði orðið stórslys. Fljótlega fór ég þó af þeirri skoðun, því hver mótorhjólalöggan á fætur annarri kom brunandi úr austurátt. Eftir u.þ.b. þriggja mínútna bið kom skýringin á þessari umferðarstöðvun í ljós. Forseti Íslands kom þarna nefnilega með fríðu föruneyti. Bæði bíll númer eitt og númer tvö. Ég las í blöðunum í morgun að forseti Slóveníu væri í heimsókn. Hann var ábyggilega í öðrum bílnum. Í kjölfar bílanna tveggja fylgdi síðan rúta. Þegar þessi hersing var farin yfir gatnamótin, þá brunuðu mótorhjólalöggunar tvær í burt og þá loksins var hægt fyrir almúgann að komast aftur af stað.

Öðrum vísi mér áður brá.

Í Afríkuríkjum tíðkast í flestum löndum að stöðva umferð þegar forseti landsins er á ferð. Ég segi nú ekki að þetta hafi verið daglegt brauð í Windhoek, en þónokkuð oft gerðist þetta. Fyrrum forseti landsins lét meira að segja stöðva umferð ef forsetafrúin var á ferð. Vakti þetta fremur litla lukku vegfarenda eins og gefur að skilja.

Og af hverju er verið að stöðva umferðina? Í Afríku þykir þetta öryggismál. Þar í álfu hefur jú komið fyrir að ráðist er á þjóðhöfðingja, jafnvel skotið á þá úr launsátri. Það er ólíkt erfiðara að hitta skotmark sem brunar á 80 km hraða eftir götum borgarinnar heldur en skotmark sem situr kyrrt á rauðu ljósi.

En á Íslandi? Höldum við virkilega að einhver vilji skjóta forseta vorn úr launsátri? Mér finnst það frekar langsótt. Ég man ekki eftir að hafa upplifað þetta áður hér á landi. Enda fannst ég mér um stund vera kominn til Afríkulanda...

Kannski hefur löggan horft aðeins of mikið á Livvagterne og aðra danska spennuþætti í sjónvarpi?

4 ummæli:

davíð sagði...

Sumir vilja a.m.k. meina að þú sért staddur í bananalýðveldi

Andrés Adolfsson sagði...

Stutt er siðan bilslys var á ljósum á Miklubraut vegna þess að einhver for yfir á rauðu. Svolitlu hvimleitt ef gesti Ólafs hefðu farist í bílslysi í heimsokn sina hér á landi. Það hefur allt sinn tilgang.
Kveðja

Nafnlaus sagði...

...á tímum ráðstjórnar voru gerðar sér götur fyrir höfðingjana í hinu stéttlausa (eða svo voru ráðstjórnarríkin skilgreind) en eftir þeim brunuðu höfðingjarnir.

Hvernig væri að Jóhanna krata drottning og Steingrímur kommi, skelltu sér í gatnagerð af svipuðum toga ó tíðkaðist í ráðstjórn, gætu fengið atvinnulausa í atvinnubótavinnu til framkvæmdanna.

Ólafur I Hrólfsson sagði...

Vissulega má segja að þetta sé öryggisatriði - hér finnst mér þetta frekar vera sýndarmennska. Þessi þjóð er ekkert fyrir svona sýningaratriði nema á 17. júní. Þar að auki vekur þetta mun meiri athygli en ef bílarnir fylgdu annari umferð.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...