23. maí 2011

Litið við í sveitinni

Viðurkennast verður að tengsl mín við sveitina eru varla til að hrópa húrra fyrir. Er hræddur um að ég entist ekki lengi sem vinnumaður í sveit. Yrði sjálfsagt sendur heim með skömm á fyrsta degi. En ætli sé ekki hægt að segja svipaða sögu um marga Íslendinga? Mig grunar það.

Hvað um það. Ég hef haft á stefnuskrá um skeið að kíkja með Rúnar Atla í sveitina og leyfa honum að sjá sveitaskepnurnar öðrum vísi en á mynd eða í sjónvarpi. Um helgina gafst gott tækifæri. Við fórum nefnilega vestur til Grundarfjarðar og fannst mér tilvalið að gera stans í Dalsmynni og fá að kíkja á lömbin. Þótt ég sé ekki mikill sveitamaður, þá veit ég þó að sauðburður er á vorin. Á Íslandi, þ.e.a.s., því ég veit líka að í öðrum löndum eiga rollur til að bera tvisvar á ári.

En nóg mont um eigin yfirburðarþekkingu...

Ég hringdi deginum áður til að forvitnast hvort væri í lagi að líta við. Þetta er jú annatími í sveitinni (annar vitneskjumoli úr mínum ranni). Ekkert sjálfsagðara en að líta við, sagði hún Halla. Ef mikið er að gera, þá fáiði bara minni þjónustu. Ekkert verið að fara í kringum hlutina á þeim bænum. Enda engin ástæða til.

Auðvitað var tekið á móti okkur með kostum og kynjum. Svanur, bloggari með meiru, ræddi við okkur um daginn og veginn yfir kaffibolla og Rúnari Atla sá bikarasafn frá smalahundakeppnum. Flott safn.

Svo var farið í fjárhúsið og fjósið og ýmsar skepnur skoðaðar.

Þessi kálfur er ekki nema dagsgamall þarna. Sá var ekki alveg sáttur við lífið og tilveruna.
Gleði þess stutta var mikil yfir þessu öllu saman og vildi hann ekki fara. Daginn eftir þegar komið var til baka frá Grundarfirði var hann hundfúll að fá ekki að gera stans á þeirri leiðinni líka.

Við lofuðum að kíkja seinna í sveitina.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...