Í gær tókum við Rúnar Atli okkur til og löbbuðum í góða tvo klukkutíma fram og til baka um Elliðaárdalinn. Kíktum á kanínur sem vappa þarna um, Rúnar Atli óð út í Elliðaá og náði í skíði sem einhver hefur tapað. Já, skíði. Guttinn fann grein sem varð fínn göngustafur og ekki má gleyma steininum sem breyttist í gps-tæki. Svo fengum við okkur auðvitað nesti.
Mjög skemmtilegt.
Göngutúrinn gekk það vel að í morgun ákváðum við að prófa eitthvað svolítið erfiðara.
Esjuganga!
Eitthvað fyrir níu vorum við mættir á bílastæðin við rætur Esju og örkuðum af stað. Eitthvað af fólki var mætt í sama tilgangi og flestir vel útbúnir. Eins og við.
Útsýnið var flott og einstaka sinnum stöðvuðum við til að njóta þess.
|
Stoltur göngugarpur með göngustafinn úr Elliðaárdalnum |
Sumstaðar var færðin nú ekki til að hrópa húrra fyrir, drullusvað. En það eyðilagði ekki okkar ánægju af göngunni. Eftir því sem ofar dró þá kólnaði og hvessti. Ekki átti ég von á því að arka í snjó á þriðja degi sumars, en það gerði ég í dag.
|
Komið vel uppfyrir snjólínu og farið að kólna. |
Við fórum upp í 530 metra hæð u.þ.b. áður en við snerum við. Þá vorum við komnir langleiðina að Steininum, en mér leist ekki nógu vel á aðstæður til að halda áfram. Tók okkur rúmlega einn og hálfan tíma að komast þangað.
Ánægðir vorum við með árangurinn.
Síðan töltum við okkur niður aftur. Það tók tímann sinn og var sumstaðar nokkuð vandasamt. En allt hafðist þetta.
|
Enn í þrusustuði, þótt búið sé að labba 530 metra upp og niður |
Svo borðuðum við nestið okkar áður en við ókum til baka.
Erum við ákveðnir í að koma aftur seinna og þá komast alla leið á toppinn.
Ekkert minna!
2 ummæli:
Flott hjá ykkur! Ég er til í Esjugöngu með ykkur síðar.
Svo bara drífa sig á Vestfirðina og ganga á milli bæja yfir fjöll. Ég redda gönguleiðakorti fisherman og nesti
Skrifa ummæli