9. apríl 2011

Fyrsti alvöru hjólatúrinn

Tók daginn þokkalega snemma. Ákvað nefnilega í gærkvöldi að fara í leiðangur á reiðhjólinu. Reyndar á ég enn eftir að pússa ryðið af annarri gjörðinni, en það gerist líklega um helgina. Ég fór sem sagt framúr rétt rúmlega sjö í morgun og var kominn á bak hjólhestinum 20 mínútum seinna eða svo.

Ég hjólaði síðan meðfram Suðurfellinu og skellti mér niður að Elliðaánni. Kom þar að brú sem ekki er gerð fyrir hjólreiðafólk og þurfti að teyma „klárinn” yfir. Hélt svo áfram í átt að Suðurlandsvegi, kíkti inn í Ásana í Árbænum, undir Suðurlandsveginn rétt hjá Hádegismóunum, til baka meðfram Rauðavatni, aftur að Elliðaánni og hjólaði meðfram henni til norðurs og svo til vesturs að lóninu. Þar upp göngu- og hjólastíg í áttina að Hólunum og síðan fann ég stíg sem liggur samhliða Vesturberginu og endar við Æsufellið.

Þessi rúntur var 11,8 km skv. gemsanum mínum, og fór ég hann á rúmum 57 mínútum. Meðalhraði 12,3 km/klst og náði einhvers staðar rúmlega 22 km hraða á klukkustund. Fín líkamsrækt.

Þvílík perla sem Elliðaáin og hennar umhverfi er. Þarna er stórkostlega fallegt svæði innan seilingar. Hægt að labba þarna um, horfa á endur, borða nesti og leyfa krökkum að hlaupa til og frá. Ekki voru margir á ferð þennan morguninn, einn maður að viðra hundinn sinn og þrír skokkarar. Annars var það bara ég og stígurinn...

En þessi rúntur lofaði góðu. Hjólið stóð sig vel. Þarf þó aðeins að athuga stillingu á gírum, því á ögurstundu var skiptingin ekki alveg eins smurð og ég vildi. Svo þarf eitthvað að kíkja á klæðnað.

Eitt skref í einu.

3 ummæli:

Gulla sagði...

Á meðan Villi púlaði á hjólinu kúrðum við mæðginin saman uppi í rúmi :-)

Sigga sagði...

Góð Gulla, duglegur Villi - ég fer ekki fyrr en 9 á laugardagsmorgnum, það er fínt, þá er Logi á æfingu á meðan.

þessi úr vestrinu sagði...

á mínu heimili er farið á fætur rúmlega 9 og ég fer í zumba dans kl 10 á laugardagsmorgunum. Mjög hressandi að byrja daginn á að dansa við tryllta tónlist í hópi frábærra súgfirska kvenna frá 4 þjóðernum.....

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...