28. apríl 2011

Misskilningur, smá...

Eftirfarandi spurning kom núna í morgunsárið, í þann mund sem verið var að leggja hönd á undirbúning brottfarar í vinnu og skóla:

„Mamma og pabbi, hvað er fukk?”

Reyndar bar sonurinn eff-orðið fram „fikk” eða eitthvað í þá veru. Í huga foreldranna lék þó enginn vafi á hvaða orð var um að ræða.

Hvað gerir maður? Fimm mínútur í átta að morgni.

Jú, maður segir: „Þetta er ljótt orð sem þú átt ekki að segja!” Eða eitthvað í þá veruna.

„En hvað er fukk-merkið?”

„Hvað áttu eiginlega við?”

Það var okkur foreldrunum algerlega fyrirmunað að skilja af hverju þetta umræðuefni bar á góma akkúrat á þessum tíma dags.

Hvað hugsar maður á svona stundu? Jú, maður verður urrandi illur yfir slæmu áhrifunum frá öðrum börnum, að skólinn sé ekki að standa sig, og svo frameftir götunum.

„Jú,” sagði sá stutti, „fff-kkk merkið á pokanum?”

Ha? Fattarinn hjá foreldrunum var ekki alveg að virka í morgun. Á pokanum? Hvaða poka?

Þá allt í einu rann upp fyrir okkur ljós. Ég var nefnilega að setja nokkra hluti í plastpoka. Á pokanum stóð stórum stöfum: FK.

Og þar fyrir neðan: Fjarðarkaup!

Urðu ekki sumir smáskömmustulegir?

Smámisskilningur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...