2. apríl 2011

Heilbrigð sál á hjólhesti

Ég hef í nokkra daga látið mig dreyma um að koma gamla hjólhestinum í gagnið. Gaman væri að hjóla öðruhverju í vinnuna, en ég er búinn að sjá út skemmtilega leið héðan úr Æsufellinu í Þverholtið. Í gegnum Fossvogsdalinn.

En áður en hægt er að hjóla, þarf að koma farartækinu í lag. Svo í morgun dró ég hjólhestinn úr híði. Rölti mér út á bensínstöð með gripinn í eftirdragi og pumpaði í dekkin. Sprautaði svo olíu á viðeigandi staði og fór í stuttan prufutúr. Gekk bara ágætlega.

En, vesalings hjólið er búið að vera afskipt í mörg ár. Líklega þarf að skipta um dekk bráðum, en gúmmíið er aðeins farið að láta á sjá. Svolítið er hjólið farið að ryðga, þ.a. ég dró upp úr pússi mínu blakk-og-dekker pússimús sem ég á. Gæðagripur, jólagjöf frá Svíaríki. Náði ég að losa ryðið af annarri gjörðinni, en tek hina á morgun.

Svo skaust ég út í búð á hjólinu. Nýtti mér þessa snilldar göngu- og hjólastíga sem virðast vera út um alla Reykjavík. Rúllaði í gegnum göng sem liggja undir Breiðholtsbrautina, þ.a. ég varla getur heitið að ég hafi þurft að fara yfir götu.

Hins vegar fann ég að eitthvað þarf að skoða klæðnaðinn áður en lagt er í lengri ferðir. Þrátt fyrir gott veður var vindurinn ískaldur þegar ég var kominn á smásiglingu. Því þarf úlpu sem heldur kuldanum úti en andar þó þannig að ég verði ekki kófsveittur.

En ætli ég taki ekki nokkrar styttri ferðir næstu daga og byggi upp þol áður en lagt verður í stóra túrinn.

1 ummæli:

Morten Lange (Reykjavík) sagði...

Gangi þér sem best, Villi.

Ef þú vilt spyrja, er oft hægt að fá ágætis svar á spjalli fjallahjólaklúbbsins :

http://www.fjallahjolaklubburinn.is
og (beint)
http://www.boards2go.com/boards/board.cgi?&user=ifhk

Kveðja,
Morten ( í stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna, www.LHM.is )

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...