15. maí 2006

Krankleiki

Í morgun pantaði ég mér tíma hjá lækni. Gerist nú ekki oft, líklega
fékk Gulla áhyggjur þegar hún frétti af þessu. En þannig var að á
laugardagsmorguninn var þá vaknaði ég með þessa líka leiðindahálsbólgu
og beinverki um allan skrokk. Lá ég bara fyrir frá 11 til
kvöldmatarleytis, og glápti á sjónvarp. Leið barasta ekki vel. En
reiknaði nú með að þetta yrði orðið betra á sunnudeginum. En svo varð
ekki. Uppúr hádegi var ég orðinn mjög slappur og lagðist hreinlega upp
í rúm. Byrjaði að lesa Da Vinci lykilinn og hætti ekki fyrr en sú bók
var búin, allar 593 blaðsíðurnar. Nú í morgun leið mér lítið betur. Hef
átt í erfiðleikum með að kyngja mat og hef lítið sofið undanfarnar tvær
nætur.

Ég hringdi því í lækninn. Venjulega batnar mér svona smálegt á
sólarhring eða tveimur, en nú var sá þriðji byrjaður og mér leið ekkert
betur, jafnvel verr ef eitthvað var. Læknirinn skoðaði mig og sýnist
þetta vera einhver bakteríusýking. Ég var sendur í blóðprufur, tvær svo
flóknar að senda þarf blóðið alla leið til Höfðaborgar. Útkoman úr því
fæst ekki fyrr en á miðvikudag.

Síðan var ég rekinn heim og sagt að mæta ekki til vinnu í a.m.k. tvo,
jafnvel þrjá daga. Má alls ekki stressa mig - streyta æsir víst upp
svona sýkingar - þ.a. ég á að slaka á. Fékk auðvitað minn skammt af
meðulum og dæli þeim í mig með reglulegu millibili.

Þegar ég sagði Tinnu Rut að nú mætti ekki stressa mig upp og allir
yrðu því að gera það sem ég bið um, spurði hún: „Væri þetta líka svona
ef ég væri með svona sýkingu?“ Bíddu, nú við, hvað lá þarna að baki.
„Jú, væri sama hvað ég bæði um, væri mér leyft að gera allt?“ Hmm, ég
var nú ekki viss um það, „...t.d. tattú...“ Nei, sagði ég, þú yrðir svo
spennt ef við segðum já að þú myndir öll stressast upp og verða
veikari, og því yrðum við að segja nei samkvæmt læknisráði.

Snöggur að hugsa hann Villi þarna.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, Loksins læt ég í mér heyra.
Vona Villi minn að krankleikinn batni sem fyrst, það gæti orðið slæmt ef Tinna Rut smitaðist, það gæti kostað tattú eða hvað?

Knús og kveðja
Stóra systir
Munda

Nafnlaus sagði...

haahhaah

Nafnlaus sagði...

Your are Nice. And so is your site! Maybe you need some more pictures. Will return in the near future.
»

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...