Rétt fyrir helgina bárust mér textaskilaboð í farsímann minn. Voru þau
frá minni elskulegu yngstu systur og var mér tilkynnt að búið væri að
ákveða 2. september nk. sem brúðkaupsdag. Þar sem ég á víst að spila
einhverja rullu í þessu brúðkaupi var mér vinsamlegast bent á að
fjárfesta í flugfarmiðum til Íslands.
Nokkuð er síðan mér var fyrst sagt frá að brúðkaup stæði fyrir dyrum.
Hefur það sennilega verið í október á síðasta ári, a.m.k. var á þeim
tíma ekki vöknuð sú hugmynd að flytjast aftur til Namibíu. Ekki skilja
þetta þannig að brúðkaupið hafi á einhvern hátt hrakið mig úr landi.
Nema síður sé. Hvað um það, á þeim tíma var horft á dag í ágúst, tólfta
dag þess meiriháttar mánaðar ef mig misminnir ekki. Síðan leið og beið,
ég flutti úr einni heimsálfu í aðra, en öðru hverju bárust fréttir,
stundum óstaðfestar. Um tíma leit út fyrir dag seint í desembermánuði,
ekki er það nú slæmur mánuður, næstsíðasta dag þess mánaðar að mig
minnir. Svo heyrðust sögur af 07.07.07, sem verður víst laugardagur. Ég
spurði nú elsku systur mína þegar ég heyrði þetta, hvort 12.12.12 væri
ekki enn flottari dagsetning. Hún sá ekki skopið í þessu, hverju sem
veldur.
Nema hvað, þessi septemberdagur er nú ekki svo slæmur fyrir mig, og
sjálfsagt hægt að finna ferð. Hvað gerir maður ekki fyrir litlu systur
sína? Ekki úr vegi að kíkja á blessaðan klakann í leiðinni og komast í
húsið sitt á Skaganum. Síðan frétti ég hins vegar að þótt væri búið að
festa ljósmyndara í brúðkaupið, ætti enn eftir að ræða við prestinn.
Hmm. „Verður rætt við hann á morgun,“ var mér sagt þegar ég innti
nánari frétta um þetta. Svo „á morgun“ forvitnast ég aftur. „Æ, hann
var ekki með dagbókina sína á sér, kallinn, en 95% öruggt. Pantaðu bara
miða.“ Í dag frétti ég síðan að sérann ætti bókaða Danmerkurferð á
þessum tíma... en ætlar að reyna að hnika henni til.
Ekki efast ég um að þetta ferli á eftir að verða efni í sögur seinna
meir. Stórskemmtilegar sögur ef að líkum lætur. Spurningin stendur þó
eftir: Ætti ég að panta miða, eða bíða?
3 ummæli:
Ekki spurning...
bíða
Great site lots of usefull infomation here.
»
Your website has a useful information for beginners like me.
»
Skrifa ummæli