10. október 2010

Við Indlandshaf

„Vá, Indlandshaf!” var það fyrsta sem mér datt í hug á fimmtudagseftirmiðdaginn var. Ég var nýkominn á Barra gistiheimilið rétt utan við Inhambane í Mósambík. Gullinlituð ströndin teygir sig til beggja handa og grænblátt hafið nær eins langt og augað eygir.

Mér er sagt að þessi strönd sé ein af fimm flottustu sólarströndum í heimi, skv. einhverju ferðatímariti. Sel það ekki dýrara en ég keypti, en mér fannst hún flott.

Allt auðvitað pakkað af fólki?

Neibb, ekki hræða á ströndinni.

Og þó, ég skrökva. Meðfram sjónum ganga þrír menn og ein kona. Sú ber stóran pinkil á höfðinu. Mennirnir sýnist mér vera fiskimenn.



Ég gisti tvær nætur þarna. Fyrri morguninn ákvað ég að fara í göngutúr vestur með ströndinni. Sandurinn var þéttur og fínn, sumstaðar næstum eins og malbik. Gaf þó pínulítið eftir. Seinni morguninn ákvað ég að prófa að skokka í hina áttina. Það var skemmtilegt. Ég lagði af stað rétt fyrir sex um morguninn og sá ýmislegt fróðlegt á leiðinni. Þarna voru nokkrir berfættir fiskimenn að koma til vinnu. Báru fötur með netum og einhverju öðru sem til veiðanna þarf. Einhverjir strákguttar, kannski 10-12 ára voru með þeim. Sjálfsagt spennandi að fara með pabba eða bróður á sjóinn.

Bátarnir sem voru dregnir á land á ströndinni voru hrörlegir. En greinilega mikið notaðir.

Þótt ég hefði ekki skokkað mjög lengi, þá sá ég ýmsar andstæður sem eru umhugsunarverðar.

Eftir að sjá þessa berfættu sjómenn, sló svolítið skökku við að sjá fjórhjóladrifinn Landkrúser, reyndar gamlan, koma keyrandi eftir ströndinni með flottan Sómabát í eftirdragi. Kannski ekki Sómabátur, en eitthvað svipað. Þarna var leiðsögumaður á ferð með túrista og átti að fara að veiða, því fínar veiðistangir voru um borð í bátnum.

Síðan sá ég ástfangna ferðamenn í rómantískum göngutúr eftir ströndinni. Sjálfsagt lítið að hugsa um lífsbaráttu fiskimannanna. Ímynda ég mér.

Eins og fyrr sagði voru fiskimennirnir berfættir. Ég hins vegar í fínum adidas-skóm. Fiskimaður væri líklega í marga mánuði að vinna sér inn fyrir svoleiðis.

Já, stundum skilur maður ekki alveg óréttlæti lífsins.

En fyrir þá sem eru forvitnir, þá hljóp ég 5,4 km á 38 mínútum og 39 sekúndum. Meðalhraði 8,4 km/klst og mesti hraði 10,7 km/klst. Ég var hæstánægður með tímann og þolið, enda langt síðan ég hef reynt mig við svona hlaupatúr.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Villi "skáfrændi"
Þessar Afríkulýsingar þínar eru búnar að kveikja þvílíka löngun til Afríkuferða að ég held þú neyðist til að byrja að skipuleggja ferðir á þessar slóðir.
Svona mánaðarferðalag um þetta heimasvæði þitt væri bara frábært. Hafðu þetta í huga þegar þú þarft að finna þér eitthvað til dundurs.
Kveðja Halla Dalsmynni

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...