18. október 2010

Konungur veganna, nú eða skapstyggur fíll

Þótt við Gulla höfum heimsótt Etosha þjóðgarðinn oftar en tölu verður á komið, þá þreytumst við aldrei á að skoða fíla. Stöðvum við alltaf bílinn þegar við sjáum fíl utan vegar og dáumst að honum í smástund áður en haldið er áfram ferð.

Ferðin síðasta föstudag var engin undantekning þar á. Þ.a. þegar við sáum fíl einn utan vegar, þá stöðvuðum við bílinn eins og lög gera ráð fyrir.

Fíll þessi virtist nokkuð kominn til ára sinna. Skögultennurnar eyddar, líklega af margra ára notkun. Svo virkaði fíllinn bara gamall og hrumur. Hrukkóttari en flestir fílar sem við höfum séð. Hann stóð þarna við veginn og virtist í þungum þönkum.


Nema hvað, rétt áður en við ætlum að leggja af stað, þá færist líf í kauða. Furðu léttur í spori fer hann allt í einu af stað út á veginn.


Þó virtist nú sem umferðarreglurnar vefðust aðeins fyrir honum, því hann arkaði af stað hægra megin á veginum. Þeir sem til þekkja í Namibíu vita jú að þar í landi er vinstrihandar umferð. Stórhættulegt auðvitað að fara á móti umferð.

Ja, nema kannski ef maður er fíll. Ætli flestir bílstjórar myndu nú ekki stöðva farartæki sitt eða sveigja til hliðar ef fíll kæmi á móti þeim.

Líklega.


En eftir smástund var eins og fíllinn áttaði sig á villu síns vegar og færði sig yfir á vinstri vegarhelming.


En, fyrir okkur sem vorum fyrir aftan, var smávegis vandamál á ferð. Þótt af myndinni megi ráða að nægt pláss sé hægra megin til framúraksturs, þá vorum við nú ekki alveg til í svoleiðis ævintýri.

Það væri ekki gæfuleg frásögn í minningargreininni: „Ungu hjónin létu lífið þegar fíll slengdi rana sínum inn um bílrúðuna hjá þeim til að mótmæla ofsaakstri þeirra hjóna.”

Nei, við ákváðum að bíða með framúraksturinn. Einhvern tímann hlyti fíllinn jú að sjá eitthvað girnilegt utan vegar og vilja fá sér snæðing.

En, einhver bið varð á þessu. Við lulluðum lúshægt á eftir fílnum, og á eftir okkur var svo kominn annar bíll.

Ég var kominn með vídeómyndavélina af stað, en innsetning á þeirri heimildarmynd bíður þess að nýrri og öflugri tölva verði keypt á heimilið.

Við sem sagt lulluðum bara. Í humátt á eftir fílnum.

En eitthvað virtist okkar vera þarna fara í taugarnar á fílnum. Hann stöðvaði allt í einu göngu sína og fór á sveifla höfðinu til hliðanna og blaka eyrunum.

Lexía: Þegar fílar blaka eyrunum, þá er best að gera sig tilbúinn að taka til fótanna. Munið það, börnin góð.

Og viti menn, allt í einu snarsneri þessi þunga skepna sér við. Alveg eldsnögg í hreyfingum, sveiflaði rananum vígalega í áttina til okkar og gaf frá sér þetta svakalega stríðsöskur.

Gulla, sem var við stýrið (því mér er bara treyst fyrir myndavélum í Etosha), hafði séð hvað verða vildi og var kominn með bílinn í bakkgír. Hún gaf allt í botn afturábak og sem betur fer hafði hinn bílstjórinn einnig haft vit á bakkgírnum (örugglega líka kvenmaður undir stýri þar).

Sjálfsagt var þetta fyndin sjón. Einn gamall og hrumur fíll æsti sig aðeins og tveir bílar reykspóluðu í burtu afturábak.

Okkur var þó ekki hlátur í huga.

A.m.k. ekki fyrr en við sáum fílinn snúa sér við í rólegheitum og halda áfram för.

Búinn að sýna hver ræður. Hver það er sem er konungur veganna í Etosha.

Sem betur fer sá hann að lokum góðgæti utan vegar þ.a. við komumst aftur af stað.

Reynslunni ríkari.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...