19. október 2010

Gíraffar

Gíraffar eru flottir.

Þeir virka álkulegir, en eru engu að síður tignarlegir í hreyfingum. Að sjá gíraffa á hlaupum er ótrúleg sjón. Þessar stóru og klunnalegu skepnur geta sprett úr spori.

Í ferðinni okkar um síðustu helgi sáum við mikið af gíröffum. Bæði eina og sér og einnig í hjörðum.

Við eitt vatnsbólið náði ég þessari mynd. Ekkert skipulag á þessum dýrum, arkandi út og suður að því er virðist.


Auðvitað þyrstir gíraffa eins og aðra. En vandamálið er að höfuðið er nokkuð langt yfir sjávarmáli. Til að drekka þurfa þeir að glenna í sundur framfæturnar. Annars nær höfuðið ekki niður að yfirborði vatnsins. Þessir tveir félagar voru að slökkva þorstanum. Hlið við hlið.

Líklega eru gíraffar auðveld bráð í svona stellingu, en þó verður að segjast að þeir eru ótrúlega snöggir upp ef þeim bregður.

Gíraffar eru gríðarlega stórar skepnur. Af myndum áttar maður sig ekki alveg á því, sérstaklega ef skepnan er ein á myndinni. En þegar annað dýr er með á mynd, þá sést stærðin vel. Á myndinni hér að neðan er gíraffi ásamt impala-hirti. Angólu-impala held ég að þessi heiti á íslensku.

Fullvaxinn impala-hjörtur getur nálgast eins metra hæð að herðakambi, sem þýðir að hnéð á gíraffanum á myndinni er líklega einn metra frá jörðu. Sennilega er þetta ferlíki vel á fimmta metra.

Og lifir bara á laufblöðum og stráum.

1 ummæli:

Lissy sagði...

Wow, just like an elephant! A huge creature that lives off nothing but plants. Sounds so idyllic, like living in the garden of Eden.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...