29. október 2010

Kaffi núna? Nei, má það ekki bíða?

Malaví ferðin var nokkuð skemmtileg þótt stutt væri. Hittum skemmtilegt fólk og sjáum forvitnilega staði. Fyrsta nóttin var reyndar nokkuð strembin. Okkur var boðið í frábæran kvöldverð í heimahúsi og sátum þar langt frameftir kvöldi. Aðeins var smakkað á Malaví-gini og svo rámar mig í viskístaup eða tvö. Inn á milli rauðvín og hin besta nautasteik.

Á hótelið komum við skömmu eftir miðnætti. Eitthvað þótti okkur dimmt inni, og vorum ekki sátt við að slokknað hefði á loftkælingunni. Nokkuð heitt í Malaví þessa dagana. En svo áttuðum við okkur á því að rafmagnið var farið. Alla nóttina var rafmagnslaust og því varð svefninn nokkuð brokkgengur. Þegar birti af degi fór ég á stjá og spurði starfsfólk hótelsins hvað væri eiginlega í gangi.

„Svona er lífið bara í Lilongve,” var mér sagt. Úr augnsvipnum mátti þó lesa: „Oh, enn einn útlendingurinn sem þolir ekki smávegis mótlæti ... spilltur af eftirlæti”

Næstu tvo tímana fór og kom rafmagnið á að giska sex sinnum.

Hinar tvær næturnar var ástandið þó betra.

Síðasta kvöldið fórum við að lítinn og huggulegan veitingastað. Don Briani's Bistro nefnist hann. Þjónninn benti okkur strax á það að því miður væri ekki hægt að bjóða upp á neitt djúpsteikt. Rafmagnið væri nefnilega ekki í lagi, og því væri djúpsteikingarpotturinn óvirkur. Þetta var nú ekki vandamál, því fullt annað var á matseðlinum sem hægt var að elda á gaseldavélinni.

Maturinn var fínn. Verður að segjast að andinn er mjög skemmtilegur á þessum stað. Mikið af allskonar fólki kom þarna og er þetta greinilega vinsæll matsölustaður.

Svo að matnum loknum spurði ég hvort hægt væri að fá cappuccino. Nei, rafmagnið í ólagi og því kaffivélin kapútt. En venjulegt kaffi? Jú, það væri nú hægt að redda því. Flott, venjulegt kaffi skyldi það vera.

En eftir svona fimm mínútur birtist þjónninn á ný, heldur niðurlútur. Því miður, rafmagnsleysið veldur því að ekkert kaffi er hægt að sörvera.

Skyndilega sagði þó þjónninn, og lifnaði yfir honum við hugmyndina: „Þið getið fengið kaffi á morgun!”

Nefnilega...

Þjónninn fékk gott þjórfé. Alltaf er gaman að hitta bjartsýnt fólk.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...