Fór í smáferðalag í síðustu viku. Ja, smá og ekki smá, var sendur á fund í Svíþjóð. Í Uppsölum, nánar tiltekið. Þetta var tveggja daga fundur hjá norrænu Afríkustofnuninni og var hann bara alveg ágætur. Kynntist þarna fólki frá hinum norðurlöndunum sem eru að vinna í sama bransa og ég, og það er alltaf gaman.
Uppsalir eru mjög fallegur staður og ekki skemmdi fyrir að veðrið lék við hvern sinn fingur. Er þetta háskólabær og setur ungt fólk mikinn svip á miðbæinn. Var þétt setinn bekkurinn meðfram á sem liggur í gegnum miðjan bæinn. Baaie lekker myndu Búarnir segja, mjög lekkert. Myndin ber vott um það.
Ég gat nú ekki annað en skotist í heimsókn til Dodda og Píu í Oxelösund. Ók ég um sveitavegi til að komast til þeirra, en þarna er náttúrufegurðin mikil. Hjá skötuhjúunum var stjanað við mig, nýbakaðar skonsur í morgunmat og hamborgarahryggur í kvöldmat. Ekkert slor.
Við fórum út á fimmeyringsverndarsvæðið, Femöre, en þar byggðu Svíar heljarinnar virki til varnar landinu. Þetta var víst útbúið á kaldastríðsárunum og er allt sundurgrafið þarna neðanjarðar.
En útsýnið var fagurt þennan apríldag sem við vorum þarna. Jú, þrátt fyrir hversu Svíar eru óþolandi montnir, þá mega þeir nú eiga það að landið þeirra er fallegt.
Og auðvitað var tekið með nesti í lautarferðina, hvað annað?
Sumir skemmta sér við skrýtnari hluti en aðrir. Draugurinn Glámur í Grettissögu reið að sögn húsum, en gaman er víst líka að ríða fallbyssum, a.m.k. virðist gömlum knöpum og hestaeigendum finnast það.
Stoppið að þessu sinni var stutt, en skemmtilegt. Ekki veit ég hvenær ég fæ tækifæri næst að skreppa til Svíaríkis, en gaman væri áreiðanlega að taka sér góðan tíma og ferðast svolítið um landið.
4. maí 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli