19. maí 2007

Slatti í gangi

Jæja, þá er Íslandsferðin rúmlega hálfnuð. Nóg er að gera. Í gær rifum við Rúnar Atli parketið af stofugólfinu, en það fór illa í fyrra vegna vatnsleka. Svo í dag var stofan máluð í hólf og gólf og er seinni umferðinni nýlokið. Parketið verður sett á á morgun og síðan verður hægt að koma húsgögnunum aftur inn.

Í gær var síðan svo gott veður að ég réðst í múrviðgerðir að lokinni haugaferð með parketleifar. Svalagólfið fyrir utan hjónaherbergið þarfnaðist viðgerðar og eins skyggnið hjá útidyrunum. Ég var búinn að versla eitthvað fínerís múrflot og keypti mér stærðarinnar þvottabala til að hræra þetta í. Hélt reyndar að það yrði mitt síðasta að burðast með balann upp stigann og er langt síðan nokkuð hefur tekið jafnmikið á í bakinu. En, eitt er víst. Ég er guðslifandi feginn að vera ekki múrari.

En múrviðgerðirnar tókust alveg ágætlega og mikið var ég ánægður að verki loknu.

Veðrið í gær var það gott að ég gróf útigrillið út úr garðskúrnum, ásamt grillkolum sem þar leyndust, og síðan var pylsum og hamborgurum skellt á grillið. Stórfínt alveg.

Enn er slæðingur af verkefnum eftir. Meiningin er að taka hjónaherbergið í gegn og mála. Síðan þarf að slá garðinn og ditten og datten.

Meginástæðan fyrir þessu öllu er að við erum að velta því fyrir okkur að setja húsið á sölu. Ef það selst, þá á að kaupa blokkaríbúð í Reykjavíkinni - reyna að koma út á eins sléttu og hægt er. Nú er líklegt að Dagmar Ýr fari í háskólanám á næstunni, stúdentinn ætti að nást um áramót, og henni þætti miklu betra að vera í höfuðborginni. En auðvitað er erfitt að eiga hús með stærðarinnar garði þegar við erum minnst á Íslandi. T.d. er agalegt að sjá mosann í garðinum núna, mosann sem ég var að mestu búinn að ná tangarhaldi á fyrir einu og hálfu ári. Áhyggjuminna verður að eiga íbúð í blokk þar sem húsfélag sér um viðhald á sameign og líklega kostar minna að eiga svoleiðis heldur en einbýlishús.

Jæja, ætli sé ekki best að reyna að teygja aðeins á aumum útlimum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gættu þess bara að það verði stór íbúð með fjölda herbergja svo ég geti gist.... takk fyrir

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...