27. maí 2007

Frídagur

Það gengur víst ekki alltaf að liggja í múrviðgerðum og afmælisveislum.



Stundum þarf að styrkja fjölskylduböndin, segja fjölskyldusálfræðingarnir. Við skruppum því í gullna ferð í dag. Hófum ferðina á ÓB hér á Skaganum til að taka bensín. Keyptum okkur örlítið nesti í sjoppunni. Þar á meðal var Merrild kaffibolli og var Maju í Norge sent sms um kaffið, en Merrild er víst ekki til í Noregi.

Hvers vegna skyldi nokkur flytja til Noregs?

Að þessu loknu lá leið okkar til Þingvalla. Þar stigum við út úr bílnum. Ja, öll nema Tinna Rut sem svaf svefni hinna réttlátu aftast í fjölskyldubílnum. Rúnari Atla fannst æðislegt að henda peningum í hyldýpið. Af mikilli náð leyfði hann þó Dagmar Ýr að henda 10 krónum út í. Eins og sést er spennandi að horfa ofan í.



Því næst lá leiðin yfir Lyngdalsheiðina og ekið í gegnum Laugarvatn. Gulla fékk eitthvað afturhvarf til fortíðar og varð bílveik...

Svo komum við að Geysi og félögum. Strokkur gaus nokkrum sinnum okkur til ánægju. Er ekki laust við að Rúnar Atli hafi hrokkið við í fyrsta sinn sem Strokkur lét bæra á sér. En þarna var prinsessan á bauninni komin úr aftursætinu og rölti sér með okkur.

Gullfoss var síðan heimsóttur.

Ferðin var þrælfín og öll fjölskylduvandamál úr sögunni.

A.m.k. til morguns.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jemin hvað Rúnar er orðin STÓR !!!

Nafnlaus sagði...

Ef að ég hefði vitað það áður en ég flutti að ég fengi ekki Merrild kaffi hér í Norge, hefði ég ekki flutt:-) Djö.... hvað mig langar í Merrild núna.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...