5. ágúst 2016

Breiðstrætin

Skoðuðum einn bíl í dag. Ágætis bíll alveg, en kannski aðeins minni en við höfðum í huga. Við sofum á þessu í nótt eða tvær. Reynda er notalegt að komin sé helgi. Fyrsta helgin okkar hér í Mapútó. Ekki að eitthvað merkilegt standi fyrir dyrum, en helgartilfinningin er notaleg samt.

Þessa dagana hef ég spáð svolítið í götuheitin hér í Mapútó. Ekki skrítið ef haft er í huga að maður er nýfluttur hingað og að reyna að ná áttum. Þá er nú betra að hafa einhverja þekkingu á götunöfnunum og hvar hver gata er miðað við hver aðra.

Margar götur nefnast Avenida en það útleggst sem breiðstræti á því ylhýra. Iðulega er það réttnefni því mörg breiðstrætin hér eru með tvær akreinar í hvora átt og eyju á milli. Eins og oft er í Afríku þá eru margar götur nefndar eftir fólki. Einhverju fólki sem hefur afrekað eitthvað merkilegt á ævinni. En, auðvitað er huglægt hvað telst nægjanlega merkilegt til að „gefa manni“ götu, tala nú ekki um breiðstræti.

Svo ég nefni nú heiti nokkura breiðstræta, en langt í frá að vera tæmandi listi, þá er hér í Mapútó eitt breiðstrætið skírt í höfuðið á Maó Tse Tung, sem auðvitað var hinn merkilegasti maður. Þvergatan - auðvitað breiðstræti - sem Maó endar á er kennd við ekki minni mann en Vladimir Lenín (Lenine upp á portúgölsku). Örlitlu fjær er síðan breiðstrætið hans Karls Marx. En ætli uppáhaldið mitt sé ekki strætið sem mín litla gata endar á, nefnilega breiðstrætið hans Kims Il Sung.

Mörg eru mikilmennin.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...