2. ágúst 2016

Flutt inn í nýja húsið

Í morgun skráðum við okkur út af Avenida hótelinu í miðbæ Mapútó og fluttum okkur yfir í nýja húsið. Fyrir forvitin Gúgul möppudýr þá heitir gatan okkar Rua Damião de Góis. Einstefnugata að stórum hluta, sem er líklega gott því gatan er þröng og bílum lagt beggja vegna. Ekki mikið pláss til að mæta öðrum bílum. Nokkur sendiráð eru í kringum okkur og er það bandaríska steinsnar frá nýja húsinu.

Dagurinn fór annars í snatt og allskonar tilfæringar. Ég tengdi þvottavélina, en svo áttuðum við okkur á því að húsið virtist vatnslaust og tók nokkra stund að uppgötva hvað olli. Fann ég út að skrúfað var fyrir vatnið við dæluna sem pumpar vatni inn í húsið og upp hæðirnar þrjár. Innan stundar var vatn farið að streyma um allt hús með miklum krafti. Ýmis svona smámál vöfðust fyrir okkur. Það er merkilegt hvað hitt og þetta er öðrum vísi milli nágrannalanda.

Eitt ævintýrið í dag var að finna stærðarinnar Spar verslun sem er ekki langt frá okkur. Hins vegar var Garmin tækið ekki alveg að fatta hvert við vildum fara. Stúlkan í tækinu benti okkur á eina búð, en eftir nokkurn bíltúr sáum við að þetta var ekki búðin sem við vildum. Síðan harðneitaði daman að finna réttu búðina. Var líklega móðguð yfir vanþakklætinu. En við vorum sem betur fer með farsíma sem var til í að leiðbeina okkur á réttan stað.

Í búðinni vorum við í góða klukkustund að versla allskonar í eldhúsið. Stærðarinnar innkaupavagn dugði eiginlega ekki - við keyptum víst 187 hluti samkvæmt búðarkassanum. Enda var strimillinn langur.

Síðan lá leið mín í fyrirtæki sem skaffar tengingar fyrir internet og sjónvarp. Æ, ég var nú ósköp sáttur við að finna afgreiðslumann sem var flinkur í enskunni. Það er þreytandi endalaust að ströggla við að skilja aðra og skiljast illa sjálfur. En þarna samdi ég um kaup á svona tengingum og ættum við að verða orðin tengd hinn daginn. Kannski á morgun, en líklega þó ekki.

Svo tókum við uppúr ferðatöskunum, en við ferðuðumst með sex stykki frá Malaví. Tvær á mann, ekkert svona einnar tösku bull eins og hjá Flugleiðum.

Ég hef góða tilfinningu fyrir húsinu, mér finnst andinn í því góður.

En ætli maður fari ekki að vinna eitthvað í fyrramálið.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...